Hvað getur valdið því?
Sæl/ll og takk fyrir fyrirspurnina
Það er ekki endilega einföld skýring við því að sumum er alltaf heitt á meðan öðrum er alltaf kalt
Aukaafurð af efnaskiptum líkamans er hitinn sem myndast. Efnaskipti eru mishröð á milli einstaklinga og eins jafnvel á milli tímabila í sólarhringnum og á lífsskeiðinu. Þar spilar inn í flókið samspil hormóna og efnaferla í líkamanum. Fólk með hæg efnaskipti kvartar gjarnan um kulda. Efnaskipti eru hægari hjá þeim sem hreyfa sig lítið og eins hægist á efnaskiptum við hækkandi aldur svo dæmi séu tekin. Besta ráðið er yfirleitt að auka hreyfingu, þannig eykst bruninn í líkamanum. Ef það hjálpar ekki er spurning um að heyra í lækni og athuga hvort ástæða sé til að skoða efnaskiptin sérstaklega, hormóna eða járnbúskap.
Önnur skýring er sú að þegar við erum að byrja að verða veik þá verður okkur gjarnan kalt. Menn telja það stafa af því að þá er líkaminn að nota alla orkuna í að reyna að koma í veg fyrir veikindin og setja kælikerfið í gang til þess að ráða betur við bakteríur eða veirur sem hækka í okkur hitann svo við upplifum kulda.
Vonandi kemur þetta að gagni
Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur