streptokokka hálsbólga ?

Komið þið sæl.

Eftir pestarlausan vetur , er hálsbólga með kvefeinkennum komin í heimsókn -loksins þegar sólin skín . Slím í öndunarfærum , grænleitt . Hitalaus . Er ástæða að fara í stroku á heilsugæslu til að kanna hvort þetta eru streptókokkar ? Væri þá nauðsynlegt að fara á antibio ? Þetta er búið að grassera í 5 daga hjá okkur, sjötugum hjónakornunum . Heilræði vel þegin

Bk

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Það eru kvefpestar að ganga núna og leggjast þær misjafnlega á einstaklinga. Einkenni ykkar eru ekki lýsandi fyrir streptókokka hálsbólgu (þ.e. hár hiti, aumir/bólgnir eitlar, mjög sár verkur í hálsi, andremma og hvítar skellur á hálskirtlum). Líklega er hér um veirupest að ræða (þ.e. nefrennsli, hósti, hæsi og særindi í hálsi) sem oftast gengur yfir á 5-7 dögum. Fari að koma hiti í ykkur eða einkenni versni er um að gera að fara á heilsugæsluna og ræða við lækni en oftast gengur þetta yfir án aðgerða og þarf bara að gefa þessu tíma. Svona til að létta aðeins á einkennum er hægt er að nota nefúða í nokkra daga til að losa um stíflur í nefi, drekka vel af vatni, anda að sér gufu til að losa um slím, sjóða saman sítrónu og engifer til að drekka eða kaupa sér hálsmola sem eru bakteríudrepandi t.d.. Vona að þetta hjálpi eitthvað en annars er hægt að finna frekari upplýsingar á Doktor.is og heilsuveru.is.

Gangi þér/ykkur vel.

Thelma Kristjánsdóttir, hjúkrunarfræðingur