Suð í eyrum/höfði

Góðan daginn

Hver gæti verið orsök þess að ég er með hátíðni suð í höfðinu ?

Ég er búinn að vera meðþetta suð töluverðan tíma ég er 72 ára og allhress að oðru leyti.

Mér finnst núorðið að þetta sé að trufla heyrnina hjá mér.

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina.

Orsakir fyrir suði í eyrum eða tinnitus geta verið margar eins og þú getur lesið um hér fyrir neðan.

Ég mæli eindregið með því að þú pantir þér tíma hjá háls, – nef og eyrna lækni til að finna orsök.

Ég fann þessar góðu upplýsingar sem hafa birst áður hér á Doktor.is um efnið.

Hvað er suð fyrir eyra?

Það er hljóð sem ekki kemur frá umhverfinu. Hægt er að líkja þessu við sjávarnið, suð frá rafmagnssnúrum, vélarhljóð o.s.frv.

Suðið getur verið missterkt og getur verið stöðugt eða komið með hléum. Oft er eins og það tengist æðaslætti.

Hjá 90% einstaklinga, sem hafa suð fyrir eyrum veldur það einnig skertri heyrn.

Hver er orsökin?

  • Kvillar í hlustinni, t.d. eyrnamergstappi eða aðskotahlutur.
  • Gat á hljóðhimnu.
  • Kvillar í miðeyra, t.d. miðeyrnabólga.
  • Kvillar í innra eyra, t.d. skemmdir af völdum hávaða eða skert heyrn vegna aldurs eða völundarsvima (Meniere sjúkdóms).
  • Kvillar í heila, t.d. æðakölkun.
  • Of hár blóðþrýstingur
  • Blóðleysi
  • Of stór skammtur af astýlsalisýlsýru (sem er í sumum verkjalyfjum)

Sjaldgæfari orsakir:

  • Góðkynja æxli á heyrnartauginni (hjúpæxli heyrnartaugar – acusticus neurinoma)

Er hægt að meðhöndla suð fyrir eyra?

Víða eru menn að prófa sig áfram en hafa enn ekki fundið meðferð sem virkar fyrir alla.

Ef heyrn er skert mun heyrnartæki oft draga úr suðinu?

Sumir nota tæki sem nánast dulbúa suðið með lægra hljóði, sem ekki veldur eins miklum óþægindum.

Ef suðið er mikið geta róandi lyf verið gagnleg. Í sumum tilvikum hverfur suðið án meðhöndlunar.

Hvað er til ráða?

Reyna skal að leiða suðið hjá sér jafnvel með aðstoð sálfræðings.

Hafa hljóð í bakgrunninum, t.d. ljúfa tónlist.

Gangi þér vel,

Svanbjörg Pálsdóttir

Hjúkrunarfræðingur