Suprefact og aukaverkanir

Spurning:

Sæl.

Ég er að sprauta mig með Suprefact (til undirbúnings fyrir glasafrjógun), eru einhverjar aukaverkanir af því lyfi?
Kveðja

Svar:

Það er hætta á aukaverkunum við notkun allra lyfja. Þær aukaverkanir sem taldar eru upp við hvert lyf eru þær aukaverkanir sem eru þekktar og mögulega eru afleiðing af töku lyfsins. Þú getur fundið fyrir þeim aukaverkunum sem ég tel upp hér að neðan. Þú getur fundið fyrir einhverjum þeirra en þú þarft alls ekki að reikna með að fá þær allar (það er nánast óhugsandi). Eftirfarandi aukaverkanatexti er fenginn úr Sérlyfjaskránni:

Algengar (>1%):
Innkirtlar: Hitakóf, minnkuð kynhvöt.
Öndunarfæri: Erting í nefslímhimnu, blóðnasir og breytingar á lyktar-og bragðskyni.
Annað: Höfuðverkur, getuleysi.

Sjaldgæfar (0,1-1%):
Innkirtlar: Brjóstastækkun (án verkja).
Meltingarfæri: Hægðatregða.
Húð: Ofnæmislík einkenni eins og húðroði, kláði, útbrot (þ.m.t. ofsakláði).
Lifur: Hækkun lifrarensýma (t.d. transamínasa).
Blóðrás: Bjúgur (lítils háttar) á ökklum og fótleggjum.
Annað: Þreyta, syfja, svimi, aukin eða minnkuð líkamsþyngd.

Mjög sjaldgæfar (<0,1%):
Meltingarfæri: Ógleði, uppköst, niðurgangur.
Lifur: Hækkun bilirúbíns í sermi.
Öndunarfæri: Alvarlegt ofnæmi samfara berkjukrampa og andnauð.
Efnaskipti: Hækkun eða lækkun á blóðfitu.
Miðtaugakerfi: Taugaveiklun, svefntruflanir, tilfinningalegt ójafnvægi, hræðsla, þunglyndi (getur komið fram eða versnað) minnistap og truflanir á einbeitingu.
Blóðrás: Hjartsláttarónot, hækkun blóðþrýstings hjá sjúklingum með háþrýsting.
Annað: Aukinn eða minnkaður hárvöxtur á höfði eða líkama.
Í upphafi meðferðar hækka testósteróngildi í sermi oftast tímabundið, en það getur leitt til þess að æxlið örvist um tíma en það getur hins vegar leitt til: Beinverkja eða beinverkir geta versnað hjá sjúklingum með meinvörp í beinum; Einkenna um skert taugaboð vegna þrýstings frá æxlinu sem kemur t. d. fram sem máttleysi í vöðvum í fótleggjum; Þvaglátatregðu, vatnsnýra (hydronephrosis) eða sogæðateppu (lymphostasis); Segamyndunar með blóðtappa í lungum.
Oftast er hægt er að komast hjá þessum aukaverkunum með samtímis meðhöndlun með andandrógen lyfi í upphafi meðferðarinnar með búserelíni. Langtímameðferð með LHRH örvum, þ.m.t. búserelín, getur í einstaka tilvikum leitt til þess að kirtilæxli myndast í heiladingli.
Í einstaka tilvikum hefur verið skýrt frá vægri tímabundinni versnun á verkjum frá æxli, versnun á almennri líðan; skertu sykurþoli (hjá sykursýkisjúklingum getur þetta valdið skertri stjórn á efnaskiptum); blóðflagnafæð, hvítfrumnafæð; suði fyrir eyrum, heyrnartruflunum, auknum þorsta, breytingum á matarlyst, verkjum í vöðvum og frá stoðkerfi.
Örsjaldan hefur orðið vart við alvarlegt ofnæmi með losti, sjónskerðingu (t.d. þokusýn) og tilfinningu um aukinn þrýsting á bak við augun.
Flestar aukaverkanirnar sem nefndar hafa verið hér að framan eru beint eða óbeint tengdar bælingu á testósteróni af völdum búserelíns (einkenni um skort á andrógen hormóni).

Kveðja
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur