Svefnrofalömun – upplýsingar

Spurning:

Sæl og blessuð.

Ég fæ mér yfirleitt síðdegislúr enda verð ég yfirleitt frekar syfjaður á þeim tíma. Að undanförnu hef ég hins vegar lent í nokkrum afar óþægilegum lúrum. Það lýsir sér þannig að ég er að sofna eða er nýsofnaður, vakna svo allt í einu og get ekki hreyft mig á neinn hátt, ég er algerlega lamaður. Það eina sem ég get gert er að anda, þannig að ég bregst yfirleitt við með því að anda eins mikið inn og ég get og þá loksins fæ ég stjórn aftur á líkamanum og kemst upp úr þessu ástandi. Þetta ástand varir ekki í mikinn tíma e.t.v. bara nokkrar sekúndur en þetta er afskaplega óþægileg tilfinning að geta ekki gert neitt.

Þetta virðist eiga sér stað þegar ég er við það að detta inn í svefninn. Þetta virðist einungis eiga sér stað þegar ég er að fá mér síðdegisblund, ég hef ekki orðið var við þetta í svefni á nóttunni en ég man yfirleitt þegar ég vakna á nóttunni. Ég veit ekki hvort þetta er kæfisvefn en til þess þarf víst að hrjóta en ég hrýt ekki mikið.

Ég vona að þú getir fundið einhverja skýringu á þessu ástandi.

Kær kveðja.

Svar:

Sæll og blessaður.

Þú lýsir á mjög góðan hátt fyrirbæri sem er vel þekkt og hefur verið kallað svefnrofalömun.

Eins og nafnið felur í sér verður lömun á þverrákóttum vöðvum í svefnrofanum, þegar viðkomandi er um það bil að festa blund eða losa svefn. Oft er þessi lömun í nánum tengslum við draumsvefn. Svefnrofalömun kemur snögglega og varir oftast í nokkrar mínútur, hættir jafn snögglega og hún kom eða smá hverfur. Oft verður snerting eða hljóð til þess að lömunin hættir. Á meðan á svefnrofalömun stendur finnst viðkomandi að hann sé vakandi eða í svefnrofanum, hann geti ekki hreyft legg né lið og lýsir því eftir á hvernig hann hafi af fremsta megni reynt að að hreyfa sig og vakna að fullu. Stundum fylgja svefnrofalömunum ofsjónir eða ofheyrnir. Við ofheyrnir lýsir fólk því að það heyri brothljóð, skóhljóð eða jafnvel fjarlæga tónlist, sem þegar nánar er athugað finnst engin skýring á. Ofsjónum er iðulega lýst sem mannveru sem stendur við rúm eða í gættinni. Einnig er lýst köfnunartilfinningu og miklum þyngslum fyrir brjósti og jafnvel eins og dauðinn sæki að. Þessar upplifanir geta valdið mikilli hræðslu og geymast í minni þess sem fyrir þeim verður árum saman. Svefnrofalamanir eru ekki óalgengar. Oftast er enginn sjúkdómur að baki þessum einkennum. Þeirra verður meira vart ef svefnvenjur eru óreglulegar og viðkomandi er þreyttur.

Þú nefnir í bréfi þínu að þú sért oft þreyttur og að þú sofir síðdegisblund. Nú veit ég ekki um svefnvenjur þínar eða heilsu að öðru leyti. Ég ráðlegg þér að byrja á líta yfir svefnvenjur þínar. Þú gætir fyllt út Svefnskrá í eina viku til að fá glöggva mynd af svefnmynstri þínu. Lestu einnig yfir ráðleggingarnar um „ Hvað get ég sjálfur gert” Hafðu í huga að flestum er það eðlilegast að sofa 7-8 klst. á sólarhring, frá miðnætti til kl. 7-8 að morgni og síðdegisblundur er þá ekki nauðsynlegur. Sefur þú of stutt eða illa á næturna sem gerir það að verkum að þú ert syfjaður á daginn og þarft að leggja þig?

Sjúkdómar sem gætu hugsanlega legið að baki svefnrofalömunum eru allir sjaldgæfir og þeim fylgja önnur einkenni sem eru oftast meira áberandi en svefnrofalamanirnar. Dæmi um slíkan sjúkdóm er drómasýki. Henni fylgir mikil dagsyfja og óviðráðanleg svefnþörf, sem veldur því að sjúklingurinn sofnar iðulega við óvenjulegar og óheppilegar aðstæður. Skyndilamanir við geðbrigði eins og við hlátur, grátur eða reiði er annað einkenni drómasýki, sem veldur því að sjúklingur missir mátt og lyppast niður ef hann verður fyrir þessum geðbrigðum. Ef þú kannast við einkenni drómasýki og syfja og svefnrofalömun lagast ekki þrátt fyrir að þér hafi tekist að koma góðri reglu á svefn þinn þá ættir þú að bera vanda þinn undir heimilislækninn þinn.

Svefnrofalömun er ekki einkennandi fyrir Kæfisvefn.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,
Bryndís Benediktsdóttir, sérfræðingur í heimilislækningum, sérsvið svefnrannsóknir