Svefnvandamál

Ég er oft rúmlega klukkutíma að reyna að festa svefn og vakna svo líka amk 1 sinni um nóttina, er 23 ára.
Málið er að ég er yfirleitt að læra þangað til ég fer að sofa til um kl 22:00 og í því felst að ég þarf að nota tölvuna. Ef ég myndi ákveða að lesa áður en ég fer að sofa er í lagi að lesa fræðibók fyrir skólann eins og efnafræði bók eða þess háttar? Myndi það hafa sömu áhrif á mann og skáldsaga?
Sem sagt ef ég myndi klára að læra allt sem ég þarf að gera í tölvunni fyrr á daginn.
Ég sef stundum í bara 5 klukkutíma.
Ég er mjög kvíðin út af skólanum. Og held ég sé líka bara byrjuð að vera kvíðin fyrir að ná ekki að sofa nóg og vera lengi að sofna og svoleiðis.

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina.

Það er mjög góð hugmynd hjá þér að stokka upp lærdómstækni þinni með þeim hætti að skipta út tölvuskjá fyrir fræðibók, nú eða hvers konar bók sem hentar þér þann daginn. Blátt ljós frá snjalltækjum og öðrum skjám blekkir heilann í að halda að það sé hábjartur dagur sem hefur svo áhrif á seitun þeirra hormóna sem stýra líkamsklukkunni og veldur því að erfitt verður að sofna.

Lestur fyrir svefn er mjög góð leið til þess að draga úr streitu fyrir nóttina og undirbúa hugann fyrir svefn, en auk þess getur það hjálpað þér að muna betur það sem lesið er. Það gæti því jafnvel reynst þér gagnlegt fyrir námið að lesa fræðibók í stað skáldsögu auk þess sem minni líkur eru á erfiðleikum við að sofna vegna spennandi framvindu bókarinnar.

Léleg gæði svefns getur ýtt undir kvíða og því er líklegt að þessi breyting á svefnrútínu þinni muni auk þess hafa jákvæð áhrif á þann kvíða sem þú lýsir. Mikilvægt er þó að skoða rót kvíðans og vinna út frá því með heildrænum hætti. Oft er góður staður til að byrja á að hreinlega ræða kvíðann við einhvern sem maður ber traust til, ef til vill fjölskyldumeðlim eða vin.  Getur það verið gagnlegt til að átta sig á hvaða aðstæður eða hugsanir það eru sem vekja upp kvíðann og hvaða bjargráð sé hollt að beita, auk þess sem góður stuðningur er ómissandi. Ef kvíðinn sækir gjarnan að þegar þú leggst á koddann er gott að muna eftir því að rökhugsun skerðist eftir því sem þreyta eykst. Því getur verið gott að setjast niður fyrr um daginn og fara yfir mögulega kvíðavalda, gera lista og skrifa niður hvernig hægt sé að takast á við hvert verkefni fyrir sig. Með þeim hætti eru mál dagsins afgreidd þegar rökhugsun er skarpari og léttara að minna sig á það þegar að háttatíma er komið.

Ég sé það á skrifum þínum að þú ert lausnarmiðuð/aður og leggur þig fram við það sem þú tekur þér fyrir hendur. Hreyfing og hugleiðsla eru einnig þættir sem mig langar til að benda þér á að skoða bæði með tilliti til þess að draga úr kvíða og til þess að bæta gæði svefns.

Stundum er þó þörf á að ræða við fagaðila til að vinna með kvíða og/eða svefnleysi og getur heilsugæslan eða námsráðgjafi vísað áfram ef þess er þörf.

Auðna Margrét Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur