Svefnvandamál í námi erlendis

 Sæll

Mig langaði til að spyrja ykkur að einu í framhaldi af grein sem ég las á doktor.is  um svefnvandamál.
Ég er ný fluttur til útlanda þar sem ég er að setjast á skólabekk og ég hef átt erfitt með að hvílast almennilega. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það sé alveg eðilegt að eiga einhverjar stress andvökunætur i nýju umhverfi en málið er að ég á svo erfitt með að hvílast heila nótt. Ég er endalaust að rumska og bylta mér og ég finn fyrir því á daginn að ég er ekki alveg úthvíldur þar sem t.d. í tímum á ég það til að dotta án þess að ráða við það. Verð bara allt í einu ótrúlega þreyttur og augnlokin verða þung.
Ég fann alveg fyrir þessu áður en ég fluttist út en mér finnst þetta bara búið að versna því þessu hefur fylgt höfuðverkur sem er eitthvað sem ég er ekki vanur að vera með.
Eru einhver ráð sem þú getur gefið mér?

Bestu kveðjur
Einn í námi

Sæll

Það sem þú ert að lýsa getur verið álag sem þú ert að taka inn á þig. Mögulega ertu að taka þetta álag sterkar inn á þig vegna breyttra aðstæðna, eða það getur verið fyrri reynsla eins og til dæmis erfiðleikar í námi hér heima,  fall á prófi eða uppsögn í vinnu eða aðrir þættir sem eru að kallast fram núna.  þannig  getur getur komið fram ákveðinn snertur að áfalli eða það sem við köllum aðlögunarröskun (adjustment disorder), þótt það sé ekki endilega mælanalegt sem sjúkleg röskun.

Kvíði og streita getur auðveldlega magnast við að hugsa um að  það fari allt á versta veg. Hluti af því að búa erlendis og hafa ekki þá stjórn á aðstæðum sem maður er vanur. Að hefja háskólanám erlendis er erfitt og krefjandi. Því má vera að þér finnist aðstæður mótdrægar þarna úti. Tungumálið snúið, framburðurinn erfiður, tjáning og svo framvegis en það ætti nú að jafna sig og róast niður. Við finnum fyrir því að okkar þarfir eru ekki eins vel uppfylltar og áður. Erfiðara að tjá okkur og að skilja aðra. Allt sem við erum vön í skipulagi er ekki til staðar heldur eitthvað annað. Óvissan kvelur okkur. Þessu þarf að horfa fram hjá.

Leiðin út úr þessu er að hafa takmarkið á hreinu og til dæmis sjá sig búinn með sitt nám. Sjá sig vera að vinna við það sem ég vil vinna við þar sem ég vil vinna og með þeim sem ég vil að séu þar. Til dæmis höfðu  þeir sem komust af fangabúðavist nasista takmark  sem þeir létu aldrei frá sér.

Breytt neyslumunstur getur kallað fram svona vanlíðan. T.d. er  ekki gott að drekka bjór á kvöldin, bara einn bjór getur kallað fram svefntruflanir. Öll neysla á sykri eða gosdrykkjum á kvöldin getur líka unnið gegn þér. Fáðu þér frekar djús, vatn eða róandi te.

Það skiptir líka miklu máli að hafa mjög stífa reglu á næringu yfir daginn. Að borða góðan morgunmat, að borða ávexti og staðgóða næringu á tveggja til þriggja tíma fresti yfir daginn. Forðast allan sykur og gosdrykki því þá geta auðveldlega komið fram svona tilfelli einbeitingarskorts og þreytu. Taka inn vítamín og helst Omega3 fitusýrur, sem aðstoða líkamann við að hafa jafnvægi á næringu yfir daginn.

Ef þú hefur lagt þig yfir daginn, verður svefnvandamálið verra. Haltu sem mest reglu á svefni, að fara að sofa á sama tíma og vakna á sama tíma. Hluti af þessu getur verið vegna þess að núna ertu að fara að sofa fyrr miðað við íslenskan tíma.

En umfram allt virðist þetta vera kvíða og streitueinkenni. Þannig að reyndu svona eitt og eitt af því sem ég nefni í greininni. Helst að byrja á því að fara í sturtu og sitja svo síðasta klst eða svo og fara yfir daginn, lífið og tilveruna með þinni bestu músik og slappa af. Finna kælinguna róa þig niður og láta það svæfa þig. Sofna sáttur er ágætis ending á hverjum degi. Ef þú ert ósáttur settu það á verkefnalistann fyrir morgundaginn. Ef það er eitthvað sem þig kvíðir fyrir,  taktu eitthvað á  því á morgun, kláraðu það og finndu af því róandi áhrif. Horfðu frekar á það sem þú ert sáttur við og gerðir vel, á því er hægt að byggja en ekki hinu, það er verkefni morgundagsins.

Taktu svona eitt og eitt og finndu af því róandi áhrif. Það er líka töluvert tínt til í greininni um svefnvandamál.

Kveðja

Björn.