Sveppalyfið Terbinafin

Fyrirspurn:

Gott kvöld, ágæta fólk
Faðir minn er að taka sveppalyfið Terbinafin vegna sýkingar undir nögl á stóru tánni, er búin með einn og hálfan mánuð.  Eftir töku lyfsins í einn mánuð þá fékk hann mikil útbrot og kláða á bakið og á handleggina, síðan núna eftir töku lyfsins í 5 vikur þá fær hann mikinn bjúg á fætur.
Tek það fram að hann er líka að taka nýrnalyf,en er að öðru leyti mjög hraustur og hress náungi, orðinn 78 ára.
Getur verið að sveppalyfið sé að valda þessu?
Langar að fá ykkar álit,

bestu kveðjur
xxxx

Aldur:
54

Kyn:
Kvenmaður

Svar:

Sæl.

Útbrot og kláði eru í samræmi við algenga aukaverkun af völdum terbinafins. Mun sjaldgæfari aukaverkun er skyndileg bjúgsöfnun og sé hún mikil skal hafa samband við lækni. Útbrotin og kláðinn eru sjaldnast alvarleg og hverfa líklegast á nokkrum vikum. Valdi kláðinn miklum óþægindum á meðan hann gengur yfir gæti verið gott að taka inn vægar ofnæmistöflur en þær er hægt að nálgast í lausasölu í apótekum.

Þórir Benediktsson
Lyfjafræðingur