Sviði í augum?

Spurning:
Ágæti læknir, um nokkurt skeið hef ég verið haldin sviða í augum eða augnbotnum. Þessu fylgir einnig viðvarandi höfuðverkur í enninu. Suma morgna er líka eins og það sé einhvers konar himna á auganu, sérstaklega þessu hægra megin. Sjónin er fín og mér finnst ég ekki óeðlilega rauð í augunum en þetta er að verða hvimleiður og áhyggjuvaldandi verkur.

Svar:
Sviðinn kemur frá yfirborði augnanna og augnhvörmum. Sviði er aðaleinkenni hins algenga sjúkdóms hvarmabólgu. Allt sem þú lýsir getur átt við þann sjúkdóm, einnig himnan yfir auganu. Roði er oftast fylgifiskur hvarmabólgunnar en þarf þó ekki að vera.  Láttu endilega augnlækni líta á augun þín, þar sem greiningin er fremur einföld. Heitir bakstrar með þvottapoka að hætti ömmu eru besta meðferðin við þessum sjúkdómi, auk hvarmaþvotts.

Bestu kveðjur,
Jóhannes Kári