Sykursýki 1 og meðganga?

Spurning:
Ég er 23 kvk úti á landi og hef verið með sykursýki síðan ég var 1 árs. Ég á strák síðan í október og ég var að velta fyrir mér hvort ég geti ekki lagt í aðra meðgöngu eða er eitthvað sem mælir á móti því? Er reyndar að vinna úr breytingum með nýtt langvarand insulin en það er allt í áttina. Ég hef alltaf verið hraust svo ég vildi bara fá að vita hvort það sé eitthva stórvægilegt sem mælir á móti því.

Svar:
Það er margt að athuga áður en sjúklingur með tegund 1 sykursýki ákveður þungun og meðgöngu en þetta á að vera meðvituð ákvörðun og ekki ,,slys“.  Í fyrsta lagi þarf blóðsykurstjórnun að vera mjög góð (HbA1c <7%) þar sem hár sykur einkum á 1sta þriðjungu meðgöngunnar getur valdið fósturgöllum. Í  öðru lagi getur haft slæmar afleiðingar að leiðrétta blóðsykurinn mjög hratt þegar í ljós kemur að viðkomandi er orðin þunguð. Þetta á einkum við um breytingar í augnbotnum sem geta versnað og þétt eftirlit hjá augnlæknum því nauðsynlegt. Í þriðja lagi þarf að skoða vel á hvaða lyfjum viðkomandi er en sum af nýrri insúlin-tegundum sem nú eru á markaði eru ekki samþykktar fyrir notkun á meðgöngu. Þetta getur í sumum tilvikum þýtt að breyta þurfi á ný yfir í eldri tegundir. Að auki eru sum blóðþrýstingslækkandi lyf og kólesteróllyf sem oft eru notuð hjá sykursjúkum ekki æskileg á meðgöngu og þarf þá að skipta í tegundir sem vitað er að þolast á þessum viðkvæmu mánuðum.
Ef allt gekk vel á fyrri meðgöngu og þú ert ekki með þekkta fylgikvilla af sykursýkinni sé ég ekkert því til fyrirstöðu að þú eignist fleiri börn en eftirlit með þunguðum konum hér á Íslandi er sérlega gott og ekki síst með þeim sem hafa þekkta sjúkdóma fyrir s.s. sykursýki. Þetta ætti þó að vera í fullri samvinnu við þinn sykursýkilækni og kvensjúkdómalækni.

Kveðja,  Arna Guðmundsdóttir, lyflæknir