Táfýla og sveittir fætur

Spurning:

Sæl.

Hver eru ykkar ráð við gamalkunnu vandamáli, nefnilega táfýlu og sveittum fótum?

Kveðja.

Svar:

Það sem er í daglegu tali kallað ”táfýla” er algengt vandamál og kvilli sem flestum finnst ansi hvimleiður Í mörgum tilfellum þar sem lykt af fótum er óvenju slæm er orsök vandans sýking á fótasvæðinu og getur ýmist verið um bakteríu- eða sveppasýkingu að ræða. Hvað varðar sveppasýkinguna, bendi ég á upplýsingar um fótsveppi hér á Doktor.is. Einnig getur verið um bakteríusýkingu að ræða. Þá er oftast um að ræða bakteríur sem þrífast á dauðum húðflögum. Með því að útrýma þessum bakteríum af fótunum má koma í veg fyrir lyktina. Til að gera það er nauðsynlegt að þvo fæturna daglega og hreinsa burtu allt dautt skinn, þurrka fæturnar vandlega. Oft er gott að nota hárblásara til að ná burt öllum raka og bera svo sótthreinsandi lausn á fæturna og láta það gufa vel upp áður en farið er í sokka. Þetta þarf að gera í nokkrar vikur til að bakteríurnar drepist.

Í flestum tilfellum er hægt að koma í veg fyrir slæma “táfýlu” með einföldum aðgerðum, svo sem að nota bómullarsokka, forðast sokka úr gerviefnum og skipta tvisvar á dag um sokka eða í hvert sinn sem þú svitnar mikið. Gakktu í leðurskóm og láttu þá standa og þorna vel áður en farið er í þá aftur. Gott er að ganga í opnum skóm og nota ekki sömu skóna dag eftir dag.

Þvoðu fæturnar daglega Hreinsaðu burt allt dautt skinn Þurrkaðu fæturna síðan vandlega Ef þú svitnar mikið á fótunum ráðlegg ég þér að kaupa talkúm (púður) sem þurrkar fæturnar. Slík efni fást án lyfseðils í öllum apótekum. Berðu sótthreinsandi efni á fæturna eftir þvott og láttu gufa vel upp Berðu svo talkúmið á Reyndu þetta í nokkrar vikur Ef ástandið lagast ekki skaltu hafa samband við heimilislækninn þinn og fá hann til að skoða fæturnar og meta hvort frekari meðferð þurfi.

Gangi þér vel.

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir