Spurning:
Sæll.
Ég er þrítug og er búin að reyna í 3 ár að verða ólétt. Ég fór til kvensjúkdómalæknis eftir að ekkert gerðist í ár. Ég hef svo til aldrei haft reglulegar blæðingar, þannig að þegar ég var á 16. ári setti heimilislæknirinn minn mig á pilluna til að koma á reglulegum blæðingum. Ég fékk allskonar ofnæmi þó aðallega útbrot, mikinn kláða og var loks sett á mildari pillu. Ég hætti síðan á pillunni, fannst það óþarfi þar sem ég var ekki í sambandi.
4 árum seinna varð ég ólétt, en fór í fóstureyðingu vegna óviðráðanlegra aðstæðna.
Nú 10 árum seinna hef ég reynt í 3 ár að verða ólétt en án árangurs, ég var á Primolut og Pergotime í rúmt ár en ekkert gerðist (ég fékk mikinn bjúg v/allra þessara hormónataflna).
Ég fór í fleiri rannsóknir og loks kom í ljós að ég framleiði ekki hormónið sem fær eggjablöðrurnar til að þroskast í egg og þar af leiðandi hef ég ekki egglos. Ég fór í aðgerð þar sem eggjastokkarnir voru blásnir upp og fleira en útúr því kom að allt var í himnalagi. Maðurinn minn fór líka í rannsókn og niðurstöður voru yfir meðallagi góðar.
Það sem ég vil nú segja er að ég byrjaði á blæðingum í síðustu viku og það ekkert smá. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer á blæðingar án hjálpar lyfja í mörg ár. Hvað getur verið að gerast? Er hugsanlegt að líkaminn sé búinn að lækna sig sjálfur? Hvernig veit ég hvort ég hafi egglos? Ég las það í einu þinna svara að mæla hitann. Er kannski eina lausnin að fara í tæknifrjóvgun eða glasafrjóvgun? Er það ekki dýrt? Borga ég það sjálf eða sjúkrasamlagið?
Með fyrirfram þökkum.
Ein leitandi.
Svar:
Sæl og blessuð.
Þú spyrð í belg og biðu. Sennilega ert þú ein af þeim konum sem sleppir af og til úr egglosi og þá verður þú ekki þunguð þann daginn. Eins og þú lýsir þessu, þá virðist flest vera í lagi utan egglosin þín sem þá er hægt að örva eins og þú lýsir. Það er gert eftir ákveðnu kerfi hvers læknis. Ef ekkert gengur gæti verið svokölluð óskýrð ófrjósemi og þá væri tæknifrjógvun rétt leið. Hún er u.þ.b. 20.000 per skipti en glasafrjógvun stighækkandi frá u.þ.b. 100.000 við fyrstu meðferð. Nánari upplýsingar átt þú að hafa fengið eða að fá hjá þeim lækni sem meðhöndlar þig/ykkur.
Gangi ykkur vel.
Arnar Hauksson dr. med.