Spurning:
Ég er með 3ja ára stúlku sem ég er búin að reyna að fara með til tannlæknis en hún bara vill ekki sjá hann. Málið er að hún er með tannstein (held ég) á tönnunum. Hann kemur neðarlega á tennur allsstaðar í munninum. Ég er úti á landi þannig að ég ákvað að spyrja ráða hvort það er eitthvað vítamín (eða efni) sem hana vantar úr því að hún fær svona. Hún er tannburstuð alltaf minnst einu sinni á dag. Svo fær hún flúortöflur. Ég ákvað að spyrja áður en ég fer að rjúka með hana til barnatannlæknis og í svæfingu og svoleiðis. En auðvitað förum við það þegar við þurfum þess.
Takk fyrir.
Ein óróleg móðir.
Svar:
Í börnum má stundum finna dökkar rendur á yfirborði tannglerungs við tannhold flestra barnatannana, svo sem lýst er í bréfinu. Slíkur litur stafar ekki af neinum skorti heldur munu sökudólgarnir vera náttúruleg sölt munnvatnsis. Einnig kunna járnsölt, sem börnum eru stundum gefin, að lita tennur dökkar. Leita þarf tannlæknis eigi að fjarlægja slíkan lit því hann hverfur ekki við venjulega tannburstun. Jafnan birtist liturinn þó skjótt aftur. Það er huggun harmi gegn að börn sem fá þennan lit virðast fá tannskemmdir síður en önnur börn. Venjulega lýkur svo slíkri aflitun tanna með tannskiptum eða um 10 ára aldurinn.
Þú virðist setja „sama-sem-merki“ á milli heimsókna til barnatannlækna og svæfinga. Þessu ætti þó að vera þveröfugt farið því að þegar barnatannlæknar sinna börnum eru þeir að öllu jöfnu öðrum tannlæknum ólíklegri til þess að þarfnast aðstoðar svæfingalækna. Sjúkdómslýsing og -greining um netið sem þessi er jafnan vafasöm. Til þess að minnka vafann ættir þú nú að fá einhvern barnatannlækni til þess að líta á hana dóttur þína við næstu hentugleika ykkar. Lista yfir barnatannlækna finnur þú í símaskránni á bls. 838.
Ólafur Höskuldsson,
sérfræðingur í barnatannlækningum