Góðan dag:
Mig langar að vita meira um tárín (taurine) í orkudrykkjum og hvort slíkir drykkir geti verið hættulegir.
Fyrirspurn um tárín (taurine)
Tárín (en. taurine) er lífræn sýra sem er ekki amínósýra heldur súlfónsýra. Tárín er afleiða amínósýrunnar sýsteins (en. cysteine) og kemur fyrir í flestum eða öllum vefjum spendýra og margra annarra lífvera. Í venjulegum mat er talsvert af táríni og inntaka fólks á venjulegu fæði er á bilinu 10-400 mg/dag. Til eru nokkrar rannsóknir á því hvað sé óhætt að taka inn mikið tárín á dag og svo virðist sem allt að 3g/dag valdi ekki eiturverkunum hjá heilbrigðu fólki. Tárín er ekki lífnauðsynlegt fæðuefni hjá fólki (frumur líkamans geta búið það til) en er það hjá köttum og sumum tegundum fugla. Tárín hefur þýðingu fyrir starfsemi þverrákóttra vöðva (beinagrindarvöðva og hjartavöðva) og margra annarra líffæra en ekki hefur verið sýnt fram á heilsubætandi áhrif af því að taka inn meira tárín en það sem við fáum með venjulegum mat. Til eru vísbendingar um að tárín hafi þýðingu fyrir að viðhalda einkennum við sóríasis sjúkdómnum og við stóra skammta eru aukaverkanir vel þekktar.
Tárín fannst upphaflega í nautsgalli og þaðan kemur nafn efnisins vegna þess að naut á latínu er taurus. Fyrst var efnið unnið úr galli og ýmsum líffærum sláturdýra en síðar fóru menn að búa það til úr öðrum efnum (samtengt=synthetic). Í nokkra áratugi hefur allt tárín sem notað er fyrir gæludýr, í lyf og matvæli verið samtengt. Engin ástæða er til að ætla að samtengt tárin hafi önnur áhrif í líkamanum en „náttúrulegt“ taurín.
Svokallaðir orkudrykkir hafa verið í tísku í nokkur ár. Ekki er til skilgreining á hvað sé orkudrykkur og margir þeirra innihalda reyndar litla sem enga orku. Þetta síðastnefnda á við um drykki sem innihalda lítið annað en tárín, glúkúrónlaktón og koffein. Því hefur verið haldið fram að tárín styrki vöðva og örvi uppbyggingu þeirra, samfara líkamsþjálfun, en um þetta er margt óljóst enn og það vantar vandaðar rannsóknir. Vaxandi vinsældir orkudrykkja af þessu tagi stafa meira af harðri markaðssetningu en vísindalegum staðreyndum.
Í nokkrum Evrópulöndum hefur verið skýrt frá alvarlegum sjúkdómstilfellum hjá ungu, hraustu fólki sem hefur verið að neyta orkudrykkja af þessu tagi, oft í tengslum við stífa líkamsrækt og í alvarlegustu tilfellunum hefur áfengi einnig verið með í spilinu. Hér hefur einkum verið um að ræða hjartsláttartruflanir, krampaflog, rugl, nýrnabilun og einnig fáein dauðsföll. Í Svíþjóð hefur verið lýst 3 dauðsföllum hjá fólki á aldrinum 18-31 árs. Allir þessir einstaklingar höfðu drukkið orkudrykki með táríni og koffeini ásamt áfengi áður en þeir létust, 2 dóu skyndidauða og einn í svefni. Áfengismagn í blóði þessara einstaklinga var ekki mjög hátt (0,6-0,9‰). Hugsanlegt er talið að það sem varð þessu unga fólki að bana hafi verið samlegðaráhrif táríns, koffeins og áfengis sem eru þekkt að hluta en ekki vel rannsökuð. Fáein svipuð tilfelli hafa verið gerð opinber í öðrum löndum.
Niðurstaðan af öllu þessu er sú að við vitum of lítið um áhrif orkudrykkja á líkamann og hugsanlega hættu sem fylgir neyslu þeirra. Þeir sem ættu eindregið að forðast svona drykki eru barnshafandi konur, börn yngri en 16 ára, þeir sem eru með sóríasis og einstaklingar sem eru viðkvæmir fyrir koffeini. Einnig ætti að forðast áfengisneyslu með drykkjum sem innihalda tárín og koffein.
Magnús Jóhannsson prófessor
Háskóli Íslands/University of Iceland
Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði/Dept. Pharmacology