Þvagfærasýking

Er með 9 ára stelpu sem fær endalausar þvagfærasýkingar semsagt 6 sýkingar á rúmum 2 mánuðum er með einkenni núna og 8 kommur en sást ekkert í þvagi , er búin að vera á fyrirbyggjandi lyfjum i 1 viku , er ekki ástæða til að senda hana í einhverjar rannsóknir ? Hef áhyggjur af þessu en finnst læknarnir frekar slakir yfir þessu

Svar:

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

6 sýkingar á rúmum 2 mánuðum er ansi oft já, það er alveg rétt hjá þér. Um að gera að reyna að fá frekari rannsókn á því hvað er að valda svona tíðum sýkingum hjá henni.

Ég læt fylgja hérna leiðir til að fyrirbyggja þvagfærasýkingu, kannski rekist þið á eitthvað sem þið hafið ekki gert hingað til:

  • Drekka vel, helst 2-3 l af vökva á dag
  • Trönuberjasafi er talinn góður til varnar þvagfærasýkingu, þá er ráðlagt að drekka um 250-300ml á dag. Sérstaklega um leið og smá einkenni þvagfærasýkingar koma, þá er gott að drekka vel af vatni og trönuberjasafa til að „skola“ þvagblöðruna vel.
  • C-vítamín er talið breyta sýrustigi þvagsins og dregur því úr líkum á þvagfærasýkingum – en það eru þó skiptar skoðanir á því.
  • Fara frekar í sturtu en í bað
  • Ekki nota sápur/olíur/hreinlætisvörur að neðan
  • Þurrka sér að neðan þannig að það er byrjað að framan og endað að aftan
  • Vera í nærbuxum sem þrengja ekki að þvag og kynfærum og séu helst úr bómull
  • Við þvaglát er mikilvægt að tæma blöðruna vel og fara reglulega – ekki „halda í sér“
  • Viðhalda góðu hreinlæti
  • Forðast hægðatregðu (með því að drekka vel, borða trefjaríkan mat, forðast teppandi mat)

Þú getur lesið um þvagfærasýkingu t.d. hér: https://doktor.is/sjukdomur/blodrubolga

En ég mæli með að biðja heimilislækninn um að rannsaka betur orsökina fyrir svona tíðum þvagfærasýkingum, það ætti alveg að vera kominn tími á það miðað við fjölda sýkinga.

Gangi ykkur vel

Sigrún Eva Sigurjónsdóttir, hjúkrunarfræðingur