Þvagsýrugigt mataræði

Hvað með kjötsúpu, ég hef heyrt að hún geti komið af stað þvagsýrugigtarkasti er það rétt ? Hvar er hægt að nákvæman lista yfir hvað er ekki gott og hvað er gott að borða.

Svar:

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Það hefur lengi verið þekkt að áfengi er áhættuþáttur í myndun á þvagsýrugigt. Því er mikilvægt að forðast áfengi ef þú ert með þvagsýrugigt. Tegund áfengis skiptir þó máli, sterk vín og bjór valda hækkun á þvagsýru og þar af leiðandi eykur hættuna á að fá þvagsýrugigt. Léttvín virðist þó ekki hafa sömu áhrif, en fyrir þá sem eru með þvagsýrugigt getur verið hætta á endurteknum liðbólgum vegna þvagsýrugigtar ef áfengisneyslan er mikil.

Neysla á sykruðum drykkjum og ávaxtasafa hefur áhrif á hækkun á þvagsýru í blóði samkvæmd nýjustu rannsóknum. En þó fannst ekki tengsl á milli sykurlausra gosdrykkja (með sætuefnum) og þvagsýrugigtar í sömu rannsóknum.

Ekki er ráðlagt að borða fituríkan  mat, en mikil neysla á fitu er talið geta hækkað þvagsýru í blóði.

Hátt púrín innihald í fæðu er eitthvað sem einstaklingar með þvagsýrugigt þurfa að forðast. En púrín er lífrænt efnasamband sem líkaminn breytir í þvagsýru.  Þó er ekki mikilvægt að forðast púrínríkt grænmeti, þar sem það hafa ekki verið afgerandi tengsl á milli þess og þvagsýrugigtar.

Púrínrík fæða er td. rautt kjöt, eins og lamba- og nautakjöt, skelfiskur, fiskur og aðrar sjávarafurðir. Einnig er innmatur, eins og td nýru,  hjörtu, lifur og slátur púrínríkt, sem og kjötsósur og fuglakjöt.

Einstaklingar sem eru með þvagsýrugigt og þjást af offitu er ráðlagt að létta sig, þar sem sterk tengsl eru á milli mikils magn af þvagsýru í blóði og offitu.

Mikilvægt er fyrir einstaklinga með þvagsýrugigt að drekka vel af vökva yfir daginn, eða um 6-8 glös á dag, þar sem það eykur þvagútskilnað og þar af leiðandi losun á þvagsýru úr líkamanum.

Óhætt er að borða alla ávexti, mjólkurafurðir (mest þó léttar), heilhveitiafurðir og heilhveitibrauð, ber, rjóma, olíur (ólívu olíu t.d), egg, hrísgrjón, hnetur, baunir, kavíar, smjör, ost og smjörlíki til dæmis.
Einkar mikilvægt er að borða ávexti og grænmeti þar sem það inniheldur mikinn vökva sem eykur þar af leiðandi þvagútskilnað.

Það er í lagi að neyta eftirtalinna tegunda í hófi. Þessar tegundir eru rúgmjöl, kaffi, bjór, te, súkkulaði, korn og hafrar, sveppir, aspas, spínat, ertur og baunir. Ferskur lax, kjúklingur, naut, svín og lamb er í lagi en þó verður að takmarka það við 115-170 grömm tvisvar í viku. Ef neytt er of mikils getur það leitt til þvagsýrugigtarkasts.

Hvað varðar kjötsúpuna er þá aðallega spurning með kjötið sjálft, lambakjötið, sem er ekki ráðlegt að neyta.

Samantekt: Það er í lagi að borða allt grænmeti og alla ávexti, egg, flesta drykki (ekki sykraða gosdrykki eða ávaxtasafa), léttar mjólkurvörur og heilhveiti. Minnkaðu neyslu á kjöti og fisk, eins og t.d. laxi og lambakjöti í 115-170 grömm tvisvar í viku.

 

Þú getur lesið þér betur til um allt sem tengist þvagsýrugigt á:

https://www.gigt.is/leit?q=%C3%BEvags%C3%BDrugigt

Einnig höfum við skrifað inn á doktor.is um þetta,

Hér: https://doktor.is/fyrirspurn/bvagsyrugigt-og-neysluvenjur

Og hér: https://doktor.is/sjukdomur/thvagsyrugigt

 

Gangi þér vel,

Sigrún Eva Sigurjónsdóttir, hjúkrunarfræðingur