Þvagsýrugigt og neysluvenjur

Spurning:

Sæll.

Ég hef nýlega greinst með þvagsýrugigt. Ég hef verið að reyna að ná af mér aukakílóum með því t.d. að drekka eplaedikblöndu 2-3 á dag. Getur þetta tengst saman? Ég er 63 ára 1,72 á hæð og 98 kg. Ég starfa sem stýrimaður á kaupskipi og hef litla möguleika að hreyfa mig mikið. Fæðið á skipinu er virkilega gott og því erfitt að standast freistingarnar. Ég borða mikið af grófu brauði, eggjum og fiski þegar ég er heima. Ég er einhleypur og finnst gaman að laga mat og vantar því góð ráð.

Með kærri kveðju.

Svar:

Sæll.

Þvagsýra er eitt af úrgangsefnum líkamans. Ef allt er með felldu skilst þvagsýra út í gegnum nýrun. Ef af einhverjum ástæðum nýrun ná ekki að losa okkur við þvagsýruna safnast hún fyrir og myndar kristalla. Ef þvagsýrukristallarnir safnast saman í liðamótum bólgnar umliggjandi vefur og ertir taugaenda nálægt liðnum. Afleiðingin er mikill sársauki.

Megineinkenni þvagsýrugigtar eru verkir í liðum, stundum í olnboga eða hné en oftar í hendi eða fæti en þó einkum í stórutá.

Þú segist vera of þungur og vera að neyta eplasýruediks í þeim tilgangi að létta þig. Það er ekkert sem bendir til að eplaediksýra auki fitulosun úr líkama. En að neysla eplaediksýru geti leitt til þvagsýrugigtar tel ég ólíklegt. Í það minnsta hef ég enga vitneskju þar um.

Hvað varðar mataræði þá felast ráðleggingar fyrst og fremst í því að hvetja viðkomandi að temja sér mataræði í anda manneldisstefnunnar sem m.a. fellst í því að borða reglubundið og fjölbreytt ásamt ríflegri vökvadrykkju (ekki þó á álkóhóli). En tengsl eru á milli mikillar alkóhóldrykkju og þvagsýrugigtar.

Með kveðju,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur