Þykknun æða og blóð

Hæ, hæ!

Ég hef tekið eftir því nú uppá síðkastið að æðar mínar eru orðnar rosalega þykkar og áberandi. Ég stunda heilsusamlegar íþróttir, borða hollt og reglulega og svefninn er í góðu standi. Ekkert hefur breyst neitt rosalega hjá mér.
Ég fékk blóðnasir, sem ég hef aðeins einusinni fengið og það var þegar ég var ólétt, svo sprakk væntanlega æð í auga mínu þar sem það er nú orðið rosalega rautt eins og blæði úr því, og fór svo á mjög mikinn túr þegar ég átti bara alls ekki að vera á túr. Hendur mínar og fætur eru frekar dofnar eins og sé búið að kreista þær og mér finnst ég bara vera frekar máttlaus.

Ég tek ekki nein lyf og er ekki á neinni getnaðarvörn.

Hvað gæti þetta verið?
Fyrirfram þakkir.

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Þetta getur verið vísbending um hækkaðan blóðþrýsting og ráðlegg ég þér að fara til þín heimilislæknis og bera það undir hann og einnig getur verið að hann vilji athuga blóðgildin þín með blóðprufu. Annars er eðlilegt að æðar,sérstaklega á handarbökum verði sýnilegri þegar fólk eldist þar sem húðin þynnist og fita undir húðinni minnkar. Æðar eru líka meira áberandi hjá grönnu fólki og eftir líkamlega áreynslu.

Gangi þér vel,

Guðrún Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur