Hæhæ,
ég á son sem verður 2 ára í apríl. Í nokkra mánuði hefur hann haft mjög tíðar hægðir, en hann kúkar allt að sjö sinnum á dag. Yfirleitt eru hægðirnar í mýkri kantinum og svo er eins og maturinn sé oft aðeins hálfmeltur, þ.e. það eru sýnilegar leyfar af mat í hægðunum. Ég hef ekki haft samband við lækni ennþá vegna þess að hann er annars mjög hress og glaður strákur og þetta virðist ekkert vera að angra hann. Hann er duglegur að borða og borðar flestan mat.
Hvað gæti valdið þessu og er þetta eitthvað sem við ættum að hafa áhyggjur af eða láta skoða betur?
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Svona örar hægðir yfir sólarhringinn er ekki hægt að telja eðlilegt og hvet ég þig eindregið til að fara með hann til læknis. Þó svo hann sé hress og kátur, sem er fyrir öllu, þá er greinilegt að upptaka næringarefna er ekki sem skyldi og því sjálfsagt að láta kanna málið.
með kveðju,
Lára Kristín Jónsdóttir
Hjúkrunarfræðingur.