Tíðar klósettferðir

Sæll.

ég þarf mjög oft að pissa,stundum kanski 7-8 ferðir á kvöldi,en svo er kannski allt skárra næsta dag,en ég er með of stóran blöðruhálskirtil þannig að ég næ ekki að tæma blöðruna.Er þetta eitthvað óeðlilegt sem ég þarf að láta skoða?
Ég er að fara í maga-og ristilskoðun í maí og gæti eitthvað komið í ljós þá í sambandi við pissið?

Góðan dag og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Helsta einkenni góðkynja stækkunar á blöðruhálskirtli er truflun á þvaglátum. Þessum einkennum má gróflega skipta í tvennt, annarsvegar vegna teppu sem stækkuninn veldur og hinsvegar vegna ertingar sem verður á blöðruna. Mikilvægt er að hafa í huga að eftirfarandi einkenni geta einnig átt við um aðra sjúkdóma, þ.á.m. illkynja breytingar í blöðruhálskirtli og því alltaf mikilvægt að leita læknis ef þeirra verður vart.

Einkenni sem verða vegna teppu:

  • Lítil eða slöpp þvagbuna.
  • Bunubið, þ.e.a.s. bíða þarf eftir bununni þannig að þrátt fyrir að einstaklingurinn þurfi að pissa getur staðið á því að takist að koma bununni af stað.
  • Þvagleki.
  • Truflun á þvaglátum, þannig að erfitt er að tæma þvagblöðruna og eftir þvaglát er tilfinning að blaðran sé ekki enn tóm.
  • Þvagteppa.

Einkenni sem verða venga ertingar:

  • Þvagleki
  • Tíð þvaglát bæði á daginn og á nóttinni.
  • Skyndileg þvaglátaþörf, í sumum tilvikum eiga menn erfitt með að komast á salerni þar sem aðdragandinn er mjög stuttur.
  • Sviði eða sársauki við þvaglát.

Í sumum tilfellum getur stækkunin haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Stækkun á blöðruhálskirtli getur valdið bráðri þvagteppu, þ.e. vegna þrýstings á þvagrásina kemst þvag ekki úr blöðrunni og hún yfirfyllist. Bráð þvagteppa er sársaukafull og því er mikilvægt að meðhöndla hana strax, bæði vegna verkja en einnig vegna þess að yfirfull þvagblaðra getur valdið skemmdum á þvagfærum.  Aðrir fylgikvillar geta verið endurtekin blöðrubólga og steinamyndun í þvagblöðrunni.

Þessi tíðu þvaglát hjá þér eru að öllum líkindum tengd stækkuninni á blöðruhálskirtlinum og mikilvægt fyrir þig að hitta þvagfæralækni til þess að fá mat á því hvaða meðferðar er þörf.

Gangi þér vel,

Sigríður Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur.