Undirmiga: Hvað er til ráða?

Spurning:

Ég á dóttur sem er 10 ára og hún hefur átt við þetta vandamál að stríða frá því hún var 3 ára, en þá fór hún allt í einu að pissa undir aftur.

Hún fór í rannsókn þegar hún var 5 ára og þá kom í ljós að hún var með of litla þvagblöðru og króníska blöðrubólgu og hún fékk náttúrlega lyf við því en hún hefur ekkert lagast. Í fyrrahaust fór hún til nýrnasérfræðings og þá vildi hann meina að þetta væri út af ristlinum og hún fékk fullt af lyfjum við því, m.a Minirín en þessi lyf virtust ekki virka á hana og hún er ennþá að væta rúmið á nóttunni, en það kemur ekki alltaf.
Ég var að spá í það hvort ég ætti að prófa aftur Minirín og láta hana ekkert drekka 1 klst. fyrir töku á lyfinu. Þetta er orðið svolítið erfitt fyrir hana þar sem hún er að fara í keppnisferðalög í sambandi við íþróttirnar sem hún æfir.

Svar:

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Það er mjög mikilvægt að reyna allar leiðir sem þekktar eru til að hjálpa börnum sem eiga við þetta vandamál að stríða. Þetta hvimleiða vandamál veldur miklu álagi á alla fjölskylduna, en þó mest á barnið sjálft eins og þú segir og sérð greinilega vel, þá er orðið erfitt fyrir stúlkuna þína að gista innan um jafnaldra og getur því leitt til þess að hún einangrist félagslega að nokkru leyti. Rót vandans er ýmist líkamleg eða andleg og því er mikilvægt að reyna að skilja vandann og styðja barnið eins og hægt er. Í fyrirspurn þinni kemur fram að dóttir þín hafi verið rannsökuð þegar hún var 3 ára gömul og þá greinst með litla þvagblöðru og króníska blöðrubólgu, svo hafi hún farið til nýrnasérfræðings sl. haust. Gott hefði verið að vita hvaða rannsóknir voru þá gerðar til að fá betri heildarmynd af ástandi hennar og einnig hefði verið gott að fá upplýsingar um hvaða ristilvandamál það er sem er að hrjá hana og hversu oft hún vætir rúm á nóttunni, hvort það eru stöku nætur eða allar nætur.

Flest börn eru hætt að væta rúm á nóttunni í síðasta lagi 5–6 ára gömul. Líkaminn framleiðir hormón sem kallast þvagtemprunarhormón (ADH) og stjórnar það því að þvagframleiðsla minnkar á ákveðnum tímum, t.d. á nóttunni. Sum börn virðast ekki framleiða nóg af þessu hormóni á nóttunni og því helst sama þvagframleiðsla og er yfir daginn og þau væta því frekar rúm sín en þau börn sem framleiða eðlilega þetta hormón. Þegar þvagblaðran fyllist sendir hún boð um að nú þurfi hún að losna við innihaldið og „okkur verður mál“. Hjá sumum börnum viðist þessi skynjun ekki hafa þróast eðlilega og þau væta því rúm sín. Því er ekki ólíklegt að börn sem enn væta rúm sín 10 ára gömul eins og dóttir þín eigi við slík vandamál að stríða. Þegar börn sem hafa náð strjórn á þvaginu og hafa hætt að væta rúm en byrja aftur eftir einhvern tíma, er mjög mikilvægt að leiða hugann að því hvort það sé eitthvað í þeirra umhverfi, heimili eða skóla sem er að valda þeim vanlíðan og reyna þá að finna út hvað það er til að finna megi lausn að vandanum. Ég ráðlegg þér eindregið ef stúlkan hefur ekki verið rannsökuð að fullu í fyrrahaust, þ.e. teknar þvagprufur, þvagfærin spegluð og teknar röntgenmyndir af þvagfærum að hafa aftur samband við lækni og fá þessar rannsóknir gerðar. Einnig þarf að taka blóðprufur, meðal annars til að útiloka að um sykursýki sé að ræða sem þó er mjög ólíklegt í hennar tilfelli. Ég læt svo fylgja með nokkrar ráleggingar sem gott er að fara eftir þegar búið er að útiloka að um líkamlegan kvilla sé að ræða, en það sakar ekki að prófa Minirinið þangað til. Ég legg þó áherslu á að rétt er að ykkar læknir leggi upp meðferðaráætlun og að henni sé fylgt.

Meðferð á undirmigu er skipt í :

Atferlisþjálfun
Atferlisþjálfun felur í sér að kenna barninu að læra þekkja inn á skilaboð líkamans. Mikilvægt er í byrjun að stoppa allt vökvaþamb á kvöldi, forðast að barnið drekki mjólk, drykki sem innihalda koffein og gosdrykki og passa að ekkert sé drukkið í 1–2 klst. áður en farið er að sofa og að barnið fari á salerni áður en farið er að sofa. Til eru fleiri en ein aðferð við atferlisþjálfun, en eitt af því sem hefur verið mikið notað eru sk. „bjöllu-lök“. Þau eru sett í rúm barnsins og byggir virkni þeirra á því að þegar barnið vætir rúmið og lakið blotnar fer af stað bjalla. Flest börn eru í fasta svefni þegar þau væta rúmið og vakna því ekki. Því er nauðsynlegt að foreldrar veki barnið og fari með það á salerni. Smám saman, oftast á nokkrum vikum, lærir barnið og hættir að losa þvag á nóttunni til að forðast þessar óskemmtilegu aðstæður. Önnur svipuð aðferð er að foreldrar stilla vekjaraklukkku á þann tíma þegar barnið hefur sofið í nokkrar klukkustundir, vekja þá
barnið og fylgja því á salerni. Mikilvægt er, hvor aðferðin sem er notuð, að foreldrar vakni og fylgi barninu á salerni svo það sofi ekki af sér hringinguna og þá lærist ekkert. Þessi aðferð, hvort formið sem notað er, skilar yfirleitt mjög góðum árangri eða allt upp í 95% og því vert að reyna. Annað sem einnig gefur góða raun er að nota sk. jákvæðniþjálfun og er ráðlagt að nota hana samhliða. Hún felur í sér að verðlauna barnið á einhvern hátt þegar það hefur verið þurrt alla nóttina, t.d. með stjörnu fyrir hverja þurra nótt og svo þegar ákveðnum fjölda stjarna er náð gerist eitthvað sem barninu finnst skemmtilegt, en leggja þarf áherslu á að aldrei má hegna barninu fyrir að væta rúmið.

Lyfjameðferð

Virka efnið í lyfinu Minirin kallast Desmopressin og virkar líkt og þvagtemprunarhormónið. Lyfið er bæði til sem töflur og sem nefsprey og er frásog nefspreysins betra. Gefa á lyfið um 1 klst. fyrir svefn og er það einfalt í notkun. Þó er mikilvægt að gera sér grein fyrir að það hjálpar ekki öllum og að með lyfjanotkun fæst ekki fram sá þáttur sem fæst með atferlisþjálfuninni, þ.e. að barnið læri að stjórna þvaglátunum sem er mjög mikilvægt, því þegar lyfjagjöf er notuð ein og sér eru allar líkur á að barnið fari aftur að væta rúmið þegar lyfjagjöf er hætt.

Sjá einnig grein um undirmigu (næturvætu) og rannsóknir hér á NetDoktor.is

Ég vona að þetta hjálpi ykkur mæðgum eitthvað, gangi ykkur vel.

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir.