Uppgangspest á meðgöngu

Spurning:

Halló.

Mig langar til að spyrjast aðeins fyrir um veikindi á meðgöngu. Svo virðist sem konan mín hafi fengið matareitrun eða eitthvað í þeim dúr og er búið að ganga upp og niður af henni í alla nótt. Hún er komin fjóra mánuði á leið og spurningin er hvort að svona veikindi geti verið skaðleg fóstrinu á einhvern hátt.

Svar:

Sæll.

Ég myndi nú hafa meiri áhyggjur af konunni. Þarmasýkingar berast ekki yfir til fóstursins. Svona magapestir standa sem betur fer yfirleitt stutt og eru oftast eftir veirusýkingu. Hins vegar er hætta á að konan ofþorni ef hún heldur engu niðri og er með mikinn niðurgang. Þess vegna er mikilvægt að fá hana til að reyna að drekka, því þótt hún kasti áfram upp þá er alltaf eitthvað af vökva sem skilar sér niður í þarma. Ef þetta ástand varir í tvo daga eða meira og/eða hún fer að verða mjög máttfarin, pissar lítið og þvagið er dökkt, er komið hættuástand fyrir bæði móður og barn og þá þarf að hafa samband við lækni og jafnvel leggja konuna inn á sjúkrahús til að gefa henni vökva í æð. Vonandi kemur ekki til þess hjá ykkur – en hjúkraðu konunni vel og haltu að henni vökva.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir