Upplýsingar um Efedrín?

Spurning:
Hversu hættulegt er að taka efedrin til að auka fitubrennslu fyrir hrausta manneskju? Hversu mikið er óhætt að taka? Fyrir ofnæmissjúklinga er mælt með að fara ekki yfir 32 mg. á dag, myndi sá skammtur vera nóg til að auka fitubrennslu?

Svar:
Lyfið efedrín er er ekki skráð hér á landi til þeirrar notkunar sem þú nefnir í fyrirspurn þinni. Ég set hér með fréttatilkynningu frá Lyfjastofnun um efedrín. Einnig bendi ég á fréttartilkynningu frá bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitinu (FDA) sem gefin var út á síðasta ári: http://www.cfsan.fdagov/~lrd/fpephed6.htmlFréttatilkynning vegna efedríns (26.02.2002)

Lyfjastofnun sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu 26. febrúar 2002.

Vegna fjölmiðlaumræðu undanfarið og aukinnar notkunar almennings á fæðubótarefnum vill Lyfjastofnun koma á framfæri eftirfarandi viðvörun.

Borið hefur á auknum ólöglegum innflutningi og notkun fæðubótarefna sem innihalda efedrín, sérstaklega í tengslum við líkamsrækt og megrun. Neysla efedríns getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, jafnvel í litlum skömmtum. Lyfjastofnun vill benda fólki á að athuga vel innihald þeirra fæðubótarefna sem það tekur inn. Innihaldslýsing er yfirleitt utan á glösunum og ef varan er sögð innihalda ephedrin, ephedra eða Ma Huang er um efedrín að ræða. Sérstaklega má nefna vöruna Ripped fuel m/efedríni og einnig ákveðnar tegundir Herbalife sem fluttar hafa verið inn ólöglega. Athygli skal vakin á því að ekki er eingöngu verið að bjóða keppnisfólki þessa vöru heldur einnig almenningi sem stundar líkamsræktarstöðvar og ekki síst unglingum.
Til frekari skýringar:
Efedrín er flokkað sem astmalyf og var áður fyrr töluvert notað sem slíkt vegna þess að það víkkar út lungnaberkjur og getur því auðveldað öndun. Þar sem lyfið hefur töluverðar aukaverkanir, t.d. á hjarta, hefur það nú í langflestum tilvikum vikið fyrir nýrri og sérhæfðari astmalyfjum.
Efedrín er skylt amfetamíni og hefur örvandi áhrif á neytandann. Rannsóknir á efedríni hafa ekki sýnt að það valdi aukinni fitubrennslu, minnki matarlyst eða leiði til þyngdartaps. Lyfið örvar miðtaugakerfið, eykur hjartslátt og getur hækkað blóðþrýsting. Þetta getur valdið hjartsláttarónotum, svima, höfuðverk, taugaveiklun, svefnleysi, kvíða, háþrýstingi, breyttu blóðflæði til heila og öðrum aukaverkunum. Nú þegar hafa sautján dauðsföll í Bandaríkjunum verið rakin til fæðubótarefna sem innihalda efedrín og Lyfja– og matvælaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) hafa fengið hundruð tilkynninga um aukaverkanir. FDA hefur lýst yfir miklum áhyggjum af notkun fæðubótarefna sem innihalda efedrín en vegna stjórnmálaþrýstings frá framleiðendum fæðubótarefna hefur ekki tekist að setja lög varðandi málið. Evrópulönd leyfa ekki sölu fæðubótarefna sem innihalda efedrín og eru þau því flutt inn ólöglega frá Bandaríkjunum til Evrópulanda. Efedrín er einnig á bannlista Alþjóða Ólympíunefndarinnar (IOC) yfir lyf í íþróttum.
Íslenskur lyfjafræðingur gerði lokaverkefni við Háskóla Íslands, árið 2001, þar sem haft var samband við lækna og þeir beðnir að meta notkun fæðubótarefna og náttúruvara hjá sjúklingum sínum og aukaverkanir af þeim. Í niðurstöðum kom m.a. fram að 16 aukaverkanir voru raktar til Ripped fuel eða efedrín notkunar og yfir 70 til Herbalife sem inniheldur stundum efedrín. Sumar þessara aukaverkana voru svo alvarlegar að þær leiddu til sjúkrahúsinnlagnar.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur