Upplýsingar um Hydroxycut

Spurning:
Getið þið veitt mér einhverjar upplýsingar um lyfið Hydroxycut? Hvort einhverjar aukaverkanir séu þekktar og hvað er í þessu. Vildi vita hvort óhætt sé að taka þetta sem aðstoð við æfingar og megrun. Ég fann engar upplýsingar á netinu, einungis meiri auglýsingar. 
Þakka kærlega

Svar:
Hydroxycut er ekki skilgreint sem lyf, heldur fæðubótaefni. Til skamms tíma innihélt Hydroxycut m.a. efedrín. Innflutningur og sala efedríns er bannaður hér á landi sem og víðast hvar í Evrópu, nema sem lyf og þá einungis til notkunar að læknisráði.  Framleiðandinn mun hafa hætt að nota efedrín (ephedra) í Hydroxycut nýlega í ljósi alvarlegra aukaverkana, þ.m.t. dauðsfalla. Hydroxycut inniheldur m.a. koffeín í talverðu magni (guarana), króm pikolínat, salisýlsýru (víðibörkur) ásamt fleiri efnum. Verkunin er í besta falli mjög lítil og ekki sönnuð með vel gerðum rannsóknum. Aukaverkanir af koffeíni eru vel þekktar. Mín skoðun er að Hydroxycut sem og flest lík efni séu gagnslítil eða gagnslaus og hætta sé á aukaverkunum. Ég bendi á frásögn um kæru sem fylkissaksóknari Missouri fylkis í Bandaríkjunum hefur lagt fram gegn framleiðendum Hydroxycut þar sem hann vill meina að fyrirtækið hafi beitt villandi auglýsingum ef ekki hreinum fölsunum við markaðssetningu efnisins. http://www.quackwatch.org/02ConsumerProtection/AG/MO/hydroxy.html 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur