Upplýsingar um tannleysi og gervigóma?

Spurning: 69 ára – Karl spyr

KOMIÐ ÞIÐ SÆL. 
FYRIRSPURN MÍN ER AÐ ÞESSU SINNI MEÐ KÓMÍSKU ÍVAFI, EN ÞÓ Í FULLRI ALVÖRU. 
ÞANNIG ER, AÐ ÉG FER BRÁÐUM AÐ FÁ MÉR GERVIGÓMA. GAMALL KUNNINGI MINN, SEM HEFUR HAFT ÞÁ Í ÞÓ NOKKUR ÁR, SAGÐI MÉR, AÐ HANN HEFÐI HÆTT AÐ NOTA ÞÆR VIÐ AÐ BORÐA, ÞVÍ BÆÐI VÆRI ÞAÐ, AÐ MATUR, SEM HONUM HEFUR ÞÓTT GÓÐUR, FINNST HONUM VONDUR, AUK ÞESS SEM PLASTBRAGÐ VÆRI AÐ ÖLLU, EF HANN VÆRI MEÐ GÓMANA UPP Í SÉR. SVO SEGIR HANN, AÐ MEÐ ÞVÍ AÐ BORÐA TANNLAUS, NJÓTI HANN MATARINS EINS OG ÞEGAR HANN VAR MEÐ EIGIN TENNUR.

AÐSPURÐUR SAGÐIST HANN LEIKA SÉR AÐ ÞVÍ AÐ TYGGJA MATINN SEM ALDREI FYRR, OG BÆTTI VIÐ, AÐ ÞEGAR HANN HEFÐI SPURT TANNLÆKNI SINN AÐ ÞVÍ, HVORT GERVITENNUR SLITNUÐU FYRR MEÐ MIKILLI NOTKUN EÐA LÍTILLI, SAGÐI HANN LÆKNINN HAFA SVARAÐ ÞVÍ TIL, AÐ MEÐ MINNI NOTKUN ENTUST ÞÆR MUN LENGUR. ÞESSI GAMLI KUNNINGI MINN SAGÐI MÉR SVO, AÐ HANN HAFI EKKI LAGT Í AÐ SEGJA TANNLÆKNINUM, AÐ HANN BORÐAÐI ÁN ÞEIRRA, ENDA HAFI HONUM VERIÐ SAGT FRÁ BARNÆSKU, AÐ TENNUR VÆRU TIL ÞESS AÐ BORÐA MEÐ!

SPURNINGIN ER ÞVÍ, ER Í LAGI AÐ BORÐA TANNLAUS, EF BRAGÐIÐ AF MATNUM BREYTIST SVO MIKIÐ TIL HINS VERRA, OG HVORT ÞAÐ SKIPTI EINHVERJU MÁLI VIÐ ENDINGU GERVITANNANNA, Þ.E.A.S., EYÐAST GÓMARNIR FYRR EÐA SEINNA MEÐ ALGJÖRU TANNLEYSI?

MEÐ BEZTU KVEÐJU,

Svar:
Einar Ragnarsson dósent við tannlæknadeild Háskóla Íslands var fenginn til þess að svara fyrirspurn 4730 og fer svar hans hér eftir:

Ekki held ég að það skipti máli hvort Jón étur tannlaus eður ei, ef honum verður ekki bumbult af því að éta allt ótuggið. Það er að vísu auðleyst með handsnúinni hakkavél, sem fást mun í Kolaportinu og eru bæði léttar og handhægar að hafa í hliðartösku. Síðan vekja þær athygli á matstofum bæjarins. Um slit er það að segja að tennur sem ekki eru notaðar slitna ekki. Slit er í réttu hlutfalli við notkun og það hvað étið er og hversu vel er tuggið. Eins er aðlögunarhæfni mannsins mjög misjöfn og sumir vilja ekki leggja á sig ap venjast að venjast þessu verkfæri en aðrir fara hvergi án þess. Menn eru misjafnir í þessu sem öðru (mis tunguliprir).  Vona ég að þetta sé nægilegt svar.

Bestu kveðjur.  Einar Ragnarsson