Upplýsingar um VSD hjartasjúkdóm?

Spurning:

Sæll.

Við vorum að velta fyrir okkur hjartasjúkdóm sem kallast VSD, en fundum ekki neitt um hann. Vona að ég geti lesið eitthvað um þetta á næstunni hjá ykkur.

Kærar þakkir.

Svar:

Sæl.

VSD er skammstöfun fyrir „ventricular septal defect” sem á íslensku útleggst sem op á milli slegla hjartans. Milli sleglanna er skilveggur sem hleypir við eðlilegar aðstæður engu blóði á milli þeirra. Ef gat er á þessum skilvegg streymir blóð frá vinstri slegli yfir til þess hægri vegna þess að vinstra megin er talsvert hærri þrýstingur en hægra megin. Þótt slíkt op geti einstöku sinnum myndast sem afleiðing hjartadreps af völdum kransæðastíflu er oftast um meðfæddan hjartagalla að ræða. Ef opið er stórt getur það haft alvarlegar og jafnvel lífshættulegar afleiðingar. Þá streymir mikið blóð frá vinstri slegli yfir til þess hægri og veldur mikilli þrýstingshækkun í lungnablóðrásinni. Mjög lítil op eru hins vegar saklaus og geta lokast sjálfkrafa. Stærri opum þarf hins vegar að loka með skurðaðgerð og eru slíkar aðgerðir nú gerðar með miklu öryggi, jafnvel á kornabörnum.

Með kveðju,
Guðmundur Þorgeirsson, hjartalæknir.
Situr í stjórn Hjartaverndar.