Utanlegsfóstur eða…?

Spurning:
Ég var með utanlegsfóstur sem þurfti að fjarlægja fyrir mánuði síðan, og annar eggjaleiðarinn fjarlægður í leiðinni. Núna held ég að ég gæti verið ólétt aftur, búin að taka tvö próf og þau hafa sýnt jákvætt en mjög dauft samt. Er komin rúman sólahring framyfir en er annars alltaf mjög regluleg! Ég hef mjög miklar áhyggjur af því að þetta gæti verið annað utanlegsfóstur, hvenær væri rétt af mér að leita til læknis vegna þessa, á ég að bíða nokkra daga í viðbót? Er með áhyggjur af því að missa hinn eggjaleiðarann líka og þar með allan möguleikann á því að eignast barn með venjulegum hætti. Hversu miklar líkur eru á því að þetta getti orðið eins og hitt? Ég var prófuð við klamydíu, það kom út neikvætt, getur niðurstaðan verið röng? Hef verið í sambúð í rúm þrjú ár. Hvaða aðrar aðstæður/gallar geta valdið utanlegsfóstri?

Svar:
Hafir þú engin einkenni utanlegsfósturs, s.s. blæðingu eða verki, og þungunarprófið er jákvætt skaltu bara vera róleg. Ef þig langar hins vegar að fá viðtal við lækninn þinn hlýtur það að vera sjálfsagt mál hvenær sem er. En svona snemma í meðgöngu sést ekkert í sónar hvort sem er svo það er ráðlegra að bíða í 2-3 vikur til viðbótar. Allar konur geta lent í því að fá utanlegsfóstur en tíðnin er þó meiri hjá konum sem verða þungaðar með lykkjuna og eftir lykkjunotkun sem og hjá konum sem fengið hafa bólgur í eggjaleiðara (vegna t.d. klamydíu) eða samgróninga eftir aðgerðir, blöðrur á eggjastokka eða legslímuvillu (endometriosis). Hafi verið tekið klamydíupróf hjá þér eru sáralitlar líkur til þess að það hafi verið falskt neikvætt og ekki ástæða til að ætla að það sé ástæða utanlegsfóstursins.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir