Útferð á meðgöngu

Spurningin:

23 ára – kona

Ég er með smá spurningu…
Ég er ólétt og komin 6 vikur á leið, ég á eitt barn fyrir og meðgangan gekk mjög vel, engin vandamál, Ég er rosalega hrædd um núna að missa fóstrið, veit ekki afhverju en þannig er það.
Ég var að pissa áðan og útferðin fannst mér vera skrítin, hún var hví með smá smá gulu í og mjög þykk, ég var að velta fyrir mér hvort þetta sé eðlilegt eða getur þetta verið að slímtappinn sé að myndast og hann hafi losnað eða hvað? með von um skjótt svar:)

Svar:

Sæl

Fyrstu vikur meðgöngunnar eru oft erfiðar að þessu leyti.  En fyrst þú átt eðlilega meðgöngu að baki þá eru töluverðar líkur á því að allt gangi vel núna líka.
Útferðin breytist oft þegar konur verða ófrískar og þykknar, smá gulleitur litur á útferðinni er ekkert til að hafa áhyggjur af að svo stöddu.  Það eru engar líkur á því að þetta sé slímtappinn.  Fylgstu með útferðinni áfram, ef hún verður illa lyktandi og jafnvel kekkjótt og önnur óþægindi eins og sviða eða kláða – þá skalltu láta kíkja á þig!

Gangi þér vel.

Kveðja,

Kristín Svala Jónsdóttir,
Hjfr. og ljósmóðir