Vandamál eftir gallblöðrutöku

Spurning:
Komdu sæll Ásgeir. Það var tekin úr mér gallblaðran fyrir 1 ári síðan, ég finn fyrir mikilli uppþembu og er mjög svo magamikil síðan.Mig langar að spyrja þig hvort ég þurfi að vanda mig með fæðuval, eða hvað get ég gert til þess að mér líði betur.Kær Kveðja, XX
Svar:
Sæl XX.Þetta er vel þekkt vandamál eftir gallblöðrutöku. Þessi uppþemba og aukið kviðarholsummál, stafar sennilega fyrst og fremst af truflun á hreyfingum ristilsins. Gjarnan fylgir þessu breyting á hægðavenjum t.d. óreglulegar hægðir, vindgangur og stundum niðurgangsköst. Eftir gallblöðrutöku verður stöðugt rennsli á galli niður í ristilinn sem getur valdið ristilertingu. Þetta gjarnan lagast síðar. Mikilvægt er að neyta hreinna trefja (t.d. Husk) 1x til 2x á dag og forðast allt sem veldur truflun á ristilhreyfingum.  Mikið kaffi og reykingar eru slæmar, svo og óreglulegt fæði. Ráðlegt er að takmarka fituinntöku.Ef þetta ekki dugar ráðlegg ég þér að ræða við lækni þinn um málið. Hann mun hjálpa þér við að leysa þetta vandamál.Kveðja, Ásgeir Theodórs