Spurning:
Kæri viðtakandi, mig langar til þess að leita ráða hjá þér með vandamál á mínum vinnustað.
Ég vinn í heilbrigðisstétt, en þar starfa einugis konur.
Ég hef unnið hjá þessu fyrirtæki frá upphafi, mórallinn hefur verið mjög góður, þangað til fyrir nokkru. En þá voru ráðnar 2 manneskjur sem hafa gjöreyðilagt hann. Þegar þær byrjuðu virtust þær falla vel inn í heildina, svo gerðist það að þær fóru að hafa bara samskipti við yfirmennina og upp úr því fóru þær að vera ráðríkar og vilja stjórna og skipa öðru starfsfólki fyrir og tína úr fólk sem þær kjósa að tala við og vanvirða hinar, þar sem við vinnum saman tvær og tvær er þetta mjög erfið staða.
Í mínu tilviki er það þannig að eg finn það einn daginn að allt í einu töluðu þær ekki við mig, ef ég kom þar sem þær voru fóru þær, ef ég fór út í reykingapásu fóru þær fljótt inn eða bara töluðu ekki við mig, ef ég var skrifuð með annari hvorri í vinnu voru þær alltaf annars staðar og töluðu ekki við mig allan daginn. Þegar þær fara út í reykingarpásu biðja þær einhverja aðra en mig að koma með sér svo ég sit oftast ein því miður. Ég er félagslynd manneskja og róleg, ég geri ekki upp á milli starfsfélaga minna, ég vil hafa vaktina þægilega og góða. Ég vildi ekki trúa þessu til að byrja með og hef verið að reyna að ýta þessum óþægindum frá mér en þetta er alltaf að verða erfiðara og erfiðara og nú er komið að því að ég á erfitt með að mæta á vaktir, hef hugleitt það að hætta. Ég mundi vilja vita ástæðuna fyrir þessu fyrst, svo finnst mér alveg ómögulegt að hætta bara út af þeim.
Það er ekki bara ég sem finn fyrir þessu. Annað starfsfólk talar um það að andinn hafi breyst á vinnustaðnum síðan þær byrjuðu, sem er alveg rétt.
Nú er ekki eins og ég hafi ekki reynt að komast í gegnum þetta því í matartímum hef ég bara sest við borðið hjá þeim og látið sem ekkert sé. Ég finn að hjá annarri er það þannig að ef ég segi eitthvað þá er það aldrei rétt, hin er þannig að hún hlustar aldrei á það sem aðrir hafa til málanna að leggja. Hún segir frá sínu og hlustar svo ekki á hina, þetta gerir mig óörugga, mér finnst ég vanvirt og inni í mér myndast mikil reiði sem ég ætti að hleypa út en einhvern veginn get ég það ekki. Ég er hrædd við að brotna saman, ég reyni að halda höfði svo þetta bitni ekki á vinnunni minni sem er bæði andlega og líkamlega erfið.
Getur þú gefið mér góðar ráðleggingar?
Kveðja.
Svar:
Heil og sæl.
Ekki er gott að heyra hvernig ástandið er í vinnunni þinni og ekki er auðvelt að átta sig á hvað er í gangi. Það líður engum vel sem upplifir það að á hann/hana sé ekki hlustað eða vera sýnt virðingarleysi. Ég held að þú verðir að reyna að komast að því hvað er í gangi. Oft er sagt að það sé best að tala beint við þá sem eru að gera þér lífið leitt og segja þeim frá því hvað er að angra þig. Ef þú treystir þér ekki til þess þá skaltu leita til þess sem er yfir þeirri deild eða einingu þar sem þú starfar. Honum eða henni ber skylda til þess að skoða málið og leysa úr því sem er að. Ef um einelti er að ræða þarf að taka á því og ef um einhvern misskilning er að ræða þarf að upplýsa hann. Þú verður að gera eitthvað og það strax. Pantaðu tíma hjá yfirmanni þínum og leggðu spilin á borðið. Mundu að það er bæði þér og vinnuveitenda þínum í hag að þér líði vel.
Bestu óskir um gott gengi
Hörður Þorgilsson, sálfræðingur