Vanlíðan af völdum sykurs?

Spurning:
Eldra barn mitt er 4 ára stúlka og ég hef áhyggjur af því hvernig hún bregst við sykri. Hún verður eins og hún sé á örvandi efni, líður illa þegar hún er að koma niður úr sykurvímunni og grætur jafnvel. Hún hefur alltaf verið svona. Magnið er tvær kökusneiðar af barnaafmælisköku (þ.e. súkkulaðik.) eða sambærilegt magn.

Það er alkóhólismi í báðum ættum og ég er að hugsa um hvort það geti verið að hún sé jafnvel búin að mynda hann. Ég hef fylgst með börnum á sama aldri og líka yngra barninu mínu og sú eldri er með allt öðruvísi hegðun en hin börnin sem ég hef spurst fyrir um. Hún hafði tímabundið mjólkuróþol fyrstu mánuðina eftir fæðingu og fyrsta mánuð óþolsins nærðist hún mjög illa, allt lak beint í gegn og mér var bara bent á að gefa epladjús og graut en svo var einhver sem benti mér á að prófa soyamjólkurduft (ekki læknir). Getur verið að hún hafi orðið fyrir varanlegum skaða út af þessari lélegu næringu á þessu tímabili? Hvernig er best að taka á þessu? Senda hana með nesti þegar hún fer í barnaafmæli?

Hún er laus við háls- og nefkirtla, með heilbrigðar tennur og frísk að öllu leyti nema þessu en áður en kirtlarnir voru teknir og rör sett í eyrun fór hún á nokkra penicilínkúra.

Svar:

Komdu sæl. Sykur (hvítur sykur, viðbættur sykur, strásykur e.t.c.) er ekki fíkniefni heldur einfaldlega orkugjafi sem samanstendur af einni þrúgusykureiningu sem er bundin saman við eina ávaxtasykureiningu. Ég tel því mjög ólíklegt að sykur framkalli þessa vanlíðan hjá barni þínu.

Aftur á móti tek ég eftir að í fyrirspurn þinni nefnir þú súkkulaðiköku sem dæmi um afurð sem framkalli óþægindi. En þess má geta að í súkkulaði eru koffínlík efni sem hafa örvandi áhrif og hugsast getur að dóttir þín sé ,,viðkvæm” gagnvart koffeini og koffeinlíkum efnum. Dökkir gosdrykkir eru mjög ríkir af koffeini og neysla þeirra oft mikil ekki síst í gleðskap eins og afmælum. En of mikil neysla á koffeini eykur hjartslátt, leiðir til slæmsku í maga og getur framkallað slæman höfuðverk.

Til þess að ganga úr skugga um áhrif fæðu á líkamlega og andlega líðan mæli ég með að haldin sé matardagbók og ef í ljós kemur að ákveðin fæða leiði endurtekið til hinna neikvæðu áhrifa ætti að draga úr eða jafnvel hætta neyslu þeirra. Þú getur leitað til næringarfræðings/næringarráðgjafa til að fá leiðbeiningar og aðstoð við þá vinnu.

Að lokum, þá tel ég mjög ólíklegt að dóttir þín hafi orðið fyrir varanlegum skaða vegna lélegrar næringar í frumbernsku.

 

Með kveðju, Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur