Vantar gott ráð til að koma fæðingu af stað.

Spurning:
ég var að velta því fyrir mér hvort það væri eitthvað gott ráð til að koma fæðingu af stað? Er komin fram yfir og vil helst ekki þurfa láta setja mig af stað

Svar:
Mig langar að segja þér frá sérstakri aðferð við samfarir sem hægt er að nota til að koma hríðunum af stað. Þetta hefur ekki verið vísindalega kannað, en reynslan sínir að margar konur, hvort sem það er af tilviljun eða eðlileg afleiðing, fá hríðir nóttina eftir ástaratlot af þessu tagi.

Liggðu á bakinu með góðan stuðning undir höfði og öxlum, makinn er andspænis þér og krýpur á milli fóta þinna. Lyftu öðrum fæti upp á öxlina á honum, síðan hinum. Þetta er að vísu ekki þægileg stelling en reðurinn gengur djúpt inn þannig að kollur hans getur snert leghálsinn. Ekki er nauðsynlegt að fá fullnægingu og raunar getur það torveldað hana ef þú leggur allt kapp á það. Makinn þinn getur þó snert þig og örvað þannig að það lánist hjá þér að fá fullnægingu. Ef það tekst getur fullnægingin komið af stað samdráttum sem breytast smám saman í háttbundið mynstur byrjandi fæðingarhríða. Eftir að makinn fær sáðfall ætti hann að vera kyrr inni í þér í svo sem fimm mínútur og þú ættir að vera kyrr í sömu stellingu með fæturna upprétta í 10-15 mínútur, þannig að leghálsinn baðist í sæði.

Það er mikilvægt að fylgja samförunum eftir með gælum við geirvörturnar með höndum og munni. Gælur við geirvörtur gefa oft góða raun þótt fólk hafi ekki haft samfarir áður. Svona gælur geta líka komið að gagni ef hríðir eru hægar eða stöðvast því örvun frá geirvörtum kemur einnig af stað samdrætti í legi. Gælur við geirvörtur af og til í svo sem 20 mínútur ásamt öðrum ljúfum atlotum á milli virðist henta flestum konum.

Liggðu svo ekki vakandi og bíddu eftir að hríðirnar hefjist. Slakaðu á og sofnaðu, þótt hríðirnar byrji ekki strax hefurðu trúlega gert þitt til að mýkja leghálsinn.

Þegar við gerum okkur ljóst að meðganga og fæðing eru ekki fyrst og fremst læknisfræðileg fyrirbæri heldur sálræn reynsla og hluti af kynlífi konunnar, öðlumst við nýjan skilning þessarar nánu snertingar við líkama okkar og tilfinningar.

Þetta er það ráð sem mig langar að benda þér á, þú ert örugglega nú þegar búin að prófa aðferðir eins og langa göngutúra, ganga upp og niður stiga og fleira í þeim dúr. Ef þér líst illa á þessa aðferð sem ég lýsi hér vill ég benda þér á að tala um það við ljósmóðurina um að hún hreifi aðeins við leghálsinum, en það getur stundum hjálpað.

Með kveðju og ósk um gott gengi, það væri gaman að heyra seinna hvernig gekk

Jórunn Frímannsdóttir
Hjúkrunarfræðingur
Ritstjóri www.Doktor.is