Vantar réttu getnaðarvörnina?

Spurning:
Sæl öll!
Þannig er að ég er í vandræðum með að finna rétta getnaðarvörn. Ég er buin að prófa margar tegundir af pillunni og þoli enga. Ég er í sambandi og mig langaði að fá upplýsingar um frjósemismæla, hef heyrt um mæli sem heitir Donna og svo heyrt talað um egglosmæla, hvaða mælir af þessum er bestur og nákvæmastur? Á ég að mæla mig á hverjum morgni? Og nota þá smokkinn þegar egglos er? Hvernig er best að fara að? Og ætti þetta að vera öruggt?  Þ.e.a.s. ef ég nota smokk þegar egglos er en sleppi smokk þá þegar egglos er ekki en kærastinn fái það samt ekki inn í mig. Með von um svör og fyrirfram þökk kveðja
P.s. hefur plásturinn Evra reynst vel? Er hann örugg getnaðarvörn?

Svar:
Komdu sæl
 
Þetta getur ekki verið heillavænlegt, þið þurfið að nota getnaðarvörn að staðaldri.  Hettan er ágætis vörn ef hún er notuð rétt og með sæðisdrepandi kremi.  Eða þið getið haldið áfram að nota smokkinn, en það er nauðsynlegt fyrir ykkur að nota hann meira en bara þegar egglos er.  Þegar hitahækkun verður hefur egglos átt sér stað og því er of seint að ætla þá að fara að nota smokkinn svo þessi aðferð væri ekki örugg.  Þú skalt endilega tala við kvensjúkdómalækni og fá frekari fræðslu og upplýsingar um hugsanlega möguleika fyrir þig.  Þar má t.d. nefna evruna eða hylki undir húð og fleira.  Svo verðum við að vona að fari að koma getnaðarvarnarpillur fyrir karla til að leysa vandann í svona tilfellum.
 
Vona að þetta gangi sem best hjá ykkur.  Hér er ágætis grein um mismunandi gerðir af getnaðarvörnum.
http://www.doktor.is/hvadermalid/grein.asp?id_grein=2826&id_fl=508
 
Með góðri kveðju,

Jórunn Frímannsdóttir
Ritstjóri – hjúkrunarfræðingur
www.Doktor.is