Vanvirkur skjaldkirtill á meðgöngu?

Spurning:

Fyrirspurn nr: 4922

29 ára – kona

Smá hugleiðingar sem ég hef verið með.

Ég er að flytja til útlanda í eitt ár og hef hugsað út í þetta með sjúkdóminn sem ég er með, óvirkan skjaldkirtil:

Ef ég skyldi verða ólétt þarna á öðru landi (sem ég efast kannski um því ekki hefur gengið vel að verða ólétt) þarf ég þá ekki að láta fylgjast með mér strax og ég veit af óléttu? Þarf að stækka skammtinn af Euthyroxíinu?

Ég er að fara að læra tungumálið á þessu landi sem ég fer til en kann það ekki á læknamáli ef ég skyldi verða ólétt..en tala ekki allir læknar ensku hvar sem er í heiminum?

Þarf eitthvað að láta fylgjast betur með sér en aðrir sem ekki eru með þennan sjúkdóm? Nú segir læknirinn minn að 25% líkur séu á því að ég geti átt barn með sama sjúkdóm því við erum tvær systurnar með hann. Þetta eru bara svona fyrirfram áhyggjur:)   Kannski óþarfar, ég veit það ekki.   Ekki get ég breytt skammtinum sjálf er það?  Fundið hvernig líðan verður eftir hvern skammt?  Ég hef oft stolist til þess og stundum hefur það verið allt í lagi og ég fundið jafnvægi en stundum ekki.

Með fyrirfram þakklæti, ***

Svar:

Sæl,

konur með vanvirkan skjaldkirtil sem taka thyroxin uppbótarmeðferð þurfa oftast (í 75% tilvika) að auka skammtinn á meðgöngu. Að öllu jöfn er nægilegt að láta mæla skjaldkirtilsprufur árlega. Fylgst er betur með á meðgöngunni en venjulega og er þetta gert í samráði við fæðingarlækni viðkomandi.

Ef þú ert að flytjast erlendis er gott að fá bréf frá þínum lækni á ensku til að taka með sér og geta þá sýnt ef þú þarft að leita til læknis í nýju landi. Þar myndi koma fram hvað sjúkdóma þú ert með, hvaða lyf þú tekur og í hvaða skömmtum ásamt nýjustu blóðprufuniðurstöðum.

Litlar líkur eru á því að barnið fæðist með vanvirkan skjaldkirtil. Það er mjög sjaldgæft. Hinsvegar getur slíkt haft alvarlegar afleiðingar fyrir þroska barnsins og þess vegna er leitað að þessum sjúkdómi hjá öllum nýburum á Íslandi. Barnið hefur auknar líkur á að fá vanvirkan skjaldkirtil ef sjúkdómurinn er í ætt þess en hann kemur yfirleitt ekki fram fyrr en á fullorðinsárum.

m.kveðju,

Arna Guðmundsdóttir, MD