Vatnshræðsla hjá 19 mánaða gömlum strák

Spurning:

Komið þið sæl og takk fyrir góða síðu.

Ég er í miklum vandræðum með strákinn minn. Hann er 19 mánaða gamall og neitar að fara í bað. Það var allt í lagi fyrstu mánuðina, þá var það skemmtilegasta sem hann gerði að fara í bað og sund. Eitt skiptið þegar hann fór í bað þá datt hann í baðinu og síðan þá hefur ekki verið hægt að koma honum í bað. Við erum búin að reyna allt sem okkur hefur dottið í hug. Farið með honum í bað, fyllt baðkerið að dóti og lesið fyrir hann bækur sem eru um krakka sem fara í bað. Honum finnst þetta allt voðalega spennandi en um leið og við setjum hann ofaní baðið til okkar þá stífnar hann upp af hræðslu og fer að gráta. Hvað getum við gert?

Með von um svar.

Kveðja.

Svar:

Komdu sæl og þakka þér fyrirspurnina.

Til að venja fólk af hræðslu við tilteknar aðstæður eða áreiti sem það hefur hvekkst á, má nefna tvær meginleiðir sem eru ólíkar. Önnur aðferðin er sú að viðkomandi, drengurinn í ykkar tilviki, komist sem fyrst í snertingu við áreitið aftur sem hann hræðist, þ.e. að setja drenginn ofan í baðið. Margir sem lent hafa í einhverjum hræðsluáföllum þekkja þessa aðferð vel. Hin aðferðin felst í því að venja hann smám saman við áreitið sem hann forðast með því að fara í gegnum lægri stig eða aðdraganda sem hann er ekki hræddur við. Ég reikna með að ykkur lítist betur á hana.

Fyrri aðferðin byggir á því að „snertingin” við hið ógnvekjandi áreiti valdi því að hræðsluáhrif þess dvíni því lengur sem snertingin varir. Á ensku er þetta kallað flooding. Í ykkar tilviki væri þetta þá þannig að í stað þess að kippa honum strax upp aftur þegar hann fer að gráta, þá dvíni gráturinn mjög fljótt ef hann er lengur ofan í, og verði hljóðnaður eftir 10 til 15 mín. Drengurinn væri svo áfram ofan í með ykkur eftir það t.d. 20 til 30 mínútur í allt og léki við ykkur á meðan. Ef þið gerið þetta tvisvar á dag nokkra daga í röð styttist tíminn stöðugt sem hann grætur og aukinn tími verður til að leika sér. Síðan mun hann reka upp roku rétt á meðan þið setjið hann ofan í, en ekki gráta neitt og njóta baðtímans eftir því sem best yrði séð. Eftir nokkur skipti mun hann svo sækjast eftir því að fara í baðið og gera það án alls gráturs, eins og hann gerði áður en hann datt.

Með því að nota seinni aðferðina og venja hann við baðið smám saman þá eigið þið að ná sama árangri, en hún tekur heldur lengri tíma. Í stað þess að setja hann beint ofan í baðið eftir lesturinn sem greinilega er stórt skref, þá takið þið smá skref í áttina að því lokamarki.

Ef þið notið þessa aðferð þá setjið þið ykkur nokkur áfangamarkmið og raðið þeim eins og þrepum sem varða veginn upp að lokamarkinu. Mörgum þykir það hjálplegt að skrifa hvert þrep eða áfanga á minnisspjald, raða spjöldunum upp eftir þyngd þannig að spjaldið með lokamarkinu er aftast. Svo númerið þið spjöldin og byrjið á spjaldinu með lægstu tölunni sem er þá efst. Spurningin er hins vegar hvað á að standa á því spjaldi – hvar eigið þið að byrja?

Það ræðst af því hvernig drengurinn hagar sér. Ef hann þorir ekki lengur orðið inn á baðherbergið, þá þurfið þið að staðsetja ykkur enn framar í ferlinu. Fyrsta þrepið þarf m.ö.o. að fela í sér mjög ánægjulegt ástand. Þið prófið kannski tvö til þrjú skref í senn, a.m.k. einu sinni á dag en helst oftar. Aðalatriðið í þessari aðferð er að reyna ekki á þanþol drengsins, heldur hætta áður en nokkur merki eru þar um. Látið hvert þrep enda vel þannig að drengurinn sé sáttur við það áður en þið færið ykkur upp á skaftið í það næsta. Látið einnig hverja æfingu enda mjög vel og byrjið næstu æfingu á sama þrepi og þið enduðuð síðustu æfinguna á.

Þó hver æfing taki e.t.v. ekki nema nokkrar mínútur í senn, þá er mjög mikilvægt að þið gefið ykkur góðan tíma og að þið veljið vel tímann fyrir þær, þannig að þið séuð öll tiltölulega óþreytt og afslöppuð. Adragandi að hverri æfingu gæti t.d. verið sá að annað ykkar væri í baðinu með dótið og hitt sæti með drenginn á stól inni á baðherberginu og raulaði fyrir hann.

Ef hann samþykkir að hann sé klæddur úr, þá skulið þið gera það og hafa stórt handklæði vafið utan um hann og það ykkar sem situr með hann heldur á honum allan tímann. Hvaða þrep það eruð sem þið notið til að venja hann við geta t.d. falist í því að þið færið ykkur smám saman nær baðkarinu. Þegar þið eruð komin að því, þá skulið þið reyna að hvetja hann með látbragði og dóti til að sulla aðeins í baðvatninu. Munið að skemmta ykkur vel á meðan og hætta áður en hann vill hætta og þið haldið ekki áfram þótt hann heimti það.

Nú getur verið að þetta gangi allt mjög vel og drengurinn jafnvel rífi af sér handkl&aeli
g;ðið til að getað sullað betur, en þegar komið er að því hann eigi að setja fæturna ofan í þá neiti hann og ferlið stöðvist. Reynið að láta ferlið þó ekki þróast þannig, því ef þið „missið þetta niður” þá getur orðið erfitt að ná æfingunum í gang aftur. Verið getur að þarna þurfi að smækka skrefin enn þá meira, s.s. eins og að láta hann sitja á baðkarsbrúninni og sulla með höndum og síðan með tánum á öðrum fætinum og svo áfram smám saman þar til kroppurinn er kominn ofan í og í fangið á hinu foreldrinu. Svo þetta gangi vel, er mikilvægt að þið fylgist náið með öllum viðbrögðum hans, en miðið ekki bara við grátinn.

Það er líka annað sem þið þurfið að gæta að til að festast ekki einhvers staðar á leiðinni í þessu æfingaferli og það er að spara alla umbun á þeim þrepum sem þegar eru orðin auðveld, þ.e. þau sem þegar er búið að kenna jafnvel þótt þið farið í gegnum þau í æfingunum. Slíkt getur komið í veg fyrir að ný og áður óséð hegðun sem flokkaðist hærra birtist í fari drengsins, þ.e. hegðun sem væri líkari lokahegðuninni sem þið stefnið að en þrepið sem þið eruð stödd á segir til um.

Ef þrepin sem koma næst á eftir því að sitja á baðkarsbrúninni og sulla með höndunum reynast óviðráðanlegur flöskuháls, prófið þá aðra leið ef það er sturta á baðkarinu. Annað ykkar fer í sturtu með drenginn í fanginu. Tappinn er hafður í baðkarinu þannig að smá vatn verði. Prófið þá að setjast.
Þegar þið gerið þetta næst, látið þá renna aðeins lengur þannig að þegar þið setjist með drenginn þá verði meira vatn í baðinu. Og svona áfram koll af kolli.

Að lokum ráðlegg ég ykkur að finna einhvern sem kennir ungbarnasund til að spjalla við. Ef þið fáið að horfa á í kennslustund, þá er það hrein unun að fylgjast með því hversu hárnákvæmir þessir kennarar eru í að stýra hegðun ungbarnanna.

Vona að þetta gangi vel.

Guðríður Adda Ragnarsdóttir atferlisfræðingur.