Vefjagigt í börnum

Spurning:

Sæl.

Ég á 11 ára gamlan son sem hefur verið greindur með vefjagigt. Mig vantar einhverjar upplýsingar um vefjagigt í börnum.

Með fyrirfram þakklæti.

Svar:

Lítið hefur verið ritað um vefjagigt í börnum og til skamms tíma var talið að hún tengdist eingöngu fullorðnum. Vefjagigt er ólík mörgum öðrum gigtarsjúkdómum þar sem ekki er um að ræða skemmdir á liðum eða öðrum vefjum líkamans. Vefjagigt einkennist af útbreiddum stoðkerfisverkjum og stirðleika. Henni getur m.a. fylgt síþreyta, truflað svefnmynstur, kvíði og þunglyndi. Sjúkdómsgreining byggir á sjúkrasögu og skoðun læknis. Baráttan við vefjagigtina felst í því taka á steitu, kvíða og verkjum t.d. með lyfjum, æfingum og breyttu lífsmynstri. Stundum er sagt að vefjagigt tengist ákveðnum fjölskyldum án þess að hægt sé að segja að hún sé arfgeng.

Fyrir börnin er mikilvægt að vita hvað er að gerast og skilja hvað vefjagigt þýðir. Vefjagigtin getur haft mikil áhrif á börn bæði í leik og starfi. Barn með vefjagigt þarft hjálp, stuðning og skilning. Vefjagigt í börnum byrjar oft með einkennum sem líkjast flensu sem barnið nær ekki að jafna sig á. Mjög ung börn muna ekki hvernig það er að vera án verkja og kvarta því síður. Þegar börn kvarta um verki á að taka það alvarlega. Einkenni vefjagigtar hjá börnum er t.d. óvær svefn, spörk og byltur um nætur og erfiðleikar með að fara á fætur á morgnana. Svefnleysi vegna verkja eða stöðugir verkir eru merki sem ekki á að leiða hjá sér sérstaklega ef annað foreldrið er með vefjagigt. Stundum eru það kennarar barnanna sem fyrstir verða varir við vanda þeirra vegna þess að oft eiga börn með vefjagigt í vandræðum í skólum. Þau eiga erfitt með að sitja í langan tíma í senn án þess að hreyfa sig. Einkennin ganga í bylgjum, þannig að sumir dagar eru verri en aðrir og þarf að taka tillit til þess og aðlaga kröfur að því. Barninu getur liðið mjög illa einn daginn og betur þann næsta og að það sést ekki alltaf utan á manni hvernig líðanin er. Horfur eru oft betri hjá börnum en fullorðnum með vefjagigt.

Hjá GÍ er starfandi áhugahópur um barnagigt sem leitast við að styða foreldra og börn með ýmsa gigtarsjúkdóma.

Starfsfólk Gigtarlínu, www.gigt.is
Gigtarfélag Íslands