Spurning:
Hæ hæ.
Ég var að vona að þið gætuð hjálpað mér í sambandi við p-pilluna. En þannig er mál með vexti að ég er búin að vera á pillunni í rúmlega 6 ár núna, en ég ákvað að hætta á henni í maí. Eftir að ég hætti á pillunni ákvað ég einnig að breyta um mataræði og taka mig verulega á. Til að gera þetta ekki of ruglingslegt þá er líka gott að taka það fram að ég hef verið með vefjagigt í 2 og hálft ár núna. En eftir að ég hætti á pillunni fór mér að líða svo vel vefjagigtarlega séð, nánast engir verkir eða neitt í fjóra mánuði. En ég var jafnframt með mjög óreglulegar með blæðingar og hafði bara blæðingar þrisvar frá maí til september. Vegna þessa ákvað ég að byrja aftur á pillunni núna fyrir svona tveimur vikum síðan. En ég finn mig versna vefjagigtarlega séð hratt. Verkirnir eru allir að koma aftur og þreytan líka, og þetta er alls ekki nógu gott. Einnig gengur mun hægar að léttast þótt mataræðið sé það sama.
Ég veit ekki alveg hvað ég á að gera. Hvaða getnaðarvörn er góð fyrir 22 ára konu sem hefur ekki átt barn? Fyrir utan smokkinn. Því það er alveg greinilegt að hormónarnir í pillunni eru ekki að fara nógu vel í skrokkinn minn. Ég held að ég geti allavegana ekki haldið áfram að vera á pillunni því mér líður svo vel án hennar að öllu leyti. Hvernig get ég hætt á henni aftur á skynsamlegan hátt?
Vonandi var þetta ekki allt of ruglingslegt og vonandi getið þið eitthvað hjálpað mér.
p.s hef verið á Marvelon pillunni í öll þessi ár.
Svar:
Ágæti fyrirspyrnadi.
Það er áhugavert að þér versni á pillunni hvað vefjagigt varðar, og rétt að þú takir það fram við þinn lækni. Það er vandi hvað skal gera, og þó svo hljómi skrýtið er það misjafnt hvernig mismunandi pillur fara í konur. Þannig eru nú á markaði pillur (pilluform) sem fara í mjög litlu magni í blóð þitt, þ.e. hormónahringurinn í leggöng, (Nuvca-ring) og hormónaplástur á húð (Evra). E.t.v. væri öruggast fyrir þig að byrja á því að prófa þessi form og sjá hvort þau hafi sömu aukaverkun á verki þína og pillutaka um munn. Ef svo færi þá eru ekki margar varnir eftir fyrir þig, en helst hetta, og svo progesterón-getnaðarvarnir, Cerazette pillan og stafurinn í handlegg (Implanon) en í þeim er bara eitt hormón og ekki að vita hvort það væri betra eða ekki nema prófa sig fram. Einnig er til getnaðarvarnarsprauta. Hins vegar gæti smokkur ef notaður er af samvisku gengið vel. Þú þarft að ráðfæra þig við þinn lækni vel um þetta og fer hann örugglega vel yfir þetta með þér.
Gangi þér vel
Arnar Hauksson dr med.