Verkir án skýringa?

Fyrirspurn:

Kæri viðtakandi.

Ég er með verki sem ég er orðin ansi leið á. Ég hef tvisvar farið til læknis út af þessum verkjum og í bæði skiptin verið send á bráðamóttöku Landspítalans v/Hringbraut. Þar hafa verið gerðar bæði þvag og blóðrannsóknir, en ekkert er sjáanlega að þar.

Þessir verkir eru staðsettir neðan við rifbeinin hægra megin og leiða oft á tíðum niður að mjöðminni, auk þess af og til, þó ekki jafn oft, niður í hægra læri. Ef ég leggst á hægri hliðina eykst verkurinn til muna og iðulega þarf ég að pissa. Ef ég ligg á bakinu er sama mál uppi, nema að þvaglát eru mun minni.

Ég hreinlega veit ekki hvað ég á að gera, þar sem ekkert finnst að, þó að þetta ástand mitt sé býsna slæmt á tíðum og ég aldrei laus við þetta. Nú er þetta orðið svo slæmt að ég á erfitt með að sofa vegna þessa, nema aðég sofi einungis á vinstri hliðinni, hvorki á bakinu né á þeirri hægri.

Ég vil helst ekki fara aftur þarna á spítalann. Aðallega þess að mér finnst óþarfi að fara þangað til að heyra að ekkert sé að, eins og að það sé ímyndun ein í mér.

Mér þykjir heimilislæknir minn alltaf hafa nóg á sinni könnu með alvarlegri sjúklinga en mig. En hvað í ósköpunum á ég að gera. Getur þú sagt mér það?

Ég tek verkjalyf að staðaldri, þó ég vilji það síður. Bæði vegna þessara verkja og vefjagigtar í baki.

Með þökk,

Aldur:
28

Kyn:
Kvenmaður

Svar:

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina,

Það er leitt að að heyra að ekki finnist nein skýring á þínu vandamáli.
Ég er ansi hrædd um að sérfræðingar hér á Doktor.is eigi ekki gott með að leysa þennan vanda á skriflegum nótum ef ekki hefur gengið hjá þeim sérfræðingum sem hafa skoðað þig og metið.

Þú nefnir að þú sért með vefjagigt og langar mig að nefna í því sambandi að einstakingar með þann sjúkdóm geta haft einkenni eins og vöðvaþreytu, vöðvaverki, vöðvastirðleika, vöðvaslappleiki og verkir í liðum. Það er mjög gott fyrir þig (sem og alla) að stunda reglulega líkamsrækt. Ganga reglulega t.d. hálftíma til klukkutíma í senn 3-5 sinnum í viku getur ekki gert þér annað en gott. Reyna að koma þessu inní þitt lífsmynstur. Þetta gerir líka það að verkum að þú ert þreyttari þegar kemur að næturhvíld og ættir vonandi að sofa/hvílast betur.
Það er til heilmikið lesefni um Vefjagigt inná Doktor.is sem ég hvet þig til að kynna þér, notaðu leitina og "vefjagigt" en ég ætla að láta hér fylgja tengil inná eina góða grein, skrifuð í fyrra af Sigrúnu Baldursdóttur, hjúkrunarfræðingi.

Það er ekki gott fyrir svona unga manneskju að vera orðin því háð að þurfa að taka inn verkjatöflur að staðaldri, það ætti að vera tímabundin lausn vandamála.

Ef þú telur þau ráð sem ég gef þér ekki vera það sem þú þarft á að halda, þá er það eina sem ég get ráðlagt þér að vera áfram í sambandi við þá lækna sem hafa sinnt þér og reyna þannig að finna lausn þinna mála. Vertu duglega að spyrja og fá góð ráð þér til handa hjá læknum og hjúkrunarfræðingum. Mundu að það er enginn einn sjúklingur/einstaklingur mikilvægari en annar.

Með bestu kveðju og vonandi eru bjartari tímar framundan.

Unnur Jónsdóttir,
Hjfr. og ritstjóri Doktor.is