Verkir í hnakka við tölvunotkun

Spurning:

Það sem veldur mér áhyggjum eru verkir sem ég hef vinstra megin í hnakkanum (enda þótt ég noti hægri hönd á músina) og verkur sem teygir sig milli herðablaðanna og niður vinstri handlegg. Sjálfur álít ég að þetta sé í tengslum við vinnuaðstöðu. Ég hef reyndar gert tilraun til að laga hana hér heima hjá mér. Ég hef meðal annars keypt lyklaborð og mús sem eru gerð eftir iðjufræðilegum reglum, og fengið mér stóran skjá með mjög góðri upplausn (það varð til þess að næstum viðvarandi höfuðverkur hvarf á tveimur vikum – ég mæli óhikað með slíkum búnaði fyrir tölvuáhugamenn með höfuðverk!)

Það sem veldur mér áhyggjum núna er að fram að þessu hefur vinnuaðstaða mín hér heima og í skólanum getað talist í lagi og verkirnir því ekki skapað mikið vandamál – og þess vegna hef ég horft fram hjá þeim í langan tíma – hugsað sem svo að þau mundu sjálfsagt hverfa fljótlega aftur. En breyting og ný uppröðun á tölvuborðunum í skólanum hefur upp á síðkastið sýnt mér fram á að þessir verkir geta verið ótrúlega slæmir, ef hlutirnir eru ekki eins og þeir þurfa að vera. Vandamálið var að borðin voru of lág.
Smátt og smátt er ég farinn að fá verkina aftur af öðrum orsökum en vinnu við léleg tölvuborð. Ég get t.d. fengið verkina við að lesa dagblöð, þar sem ekki er önnur áreynsla en að halda höndunum 10 sentimetrum ofar lærunum eða að ég geri eitthvað annað sem eiginlega gerir alls ekki sérlega miklar kröfur. Spennan eykst þá skyndilega og ég neyðist þá til dæmis að leggja frá mér dagblaðið. Er ég að verða fórnarlamb tölvunotkunar? Sé svo, hvað get ég þá gert til að afstýra því?

Svar:

Eins og þú sjálfur hefur nefnt er mikilvægt að tækjum þínum sé komið fyrir á réttan hátt. Það lítur út fyrir að þú myndir mikla spennu þegar þú situr við vinnu þína. Þarafleiðandi verður álagið of mikið á þá vöðva sem halda handleggjunum í vinnustöðu.

Slakar þú á öðru hvoru eða ferðu ef til vill í leikfimi stöku sinnum? Ég held að það sé mikilvægt fyrir þig að fást við eitthvað sem reynir á líkamann – inn á milli starfa þinna við tölvurnar. Það byggir upp og styrkir vöðvana og losar um spennuna. Það er erfitt að ráðleggja æfingar hér, en þú gætir haft samband við sjúkraþjálfara og fengið leiðbeiningar um slökun og æfingar.

Gangi þér vel,

Kveðja,
Erla Sveinsdóttir læknir