Verkir í lífbeini og vindverkir

Spurning:

Góðan dag Dagný.

Mig langar að vita hvort óhætt sé að taka inn lyfið Surmontil 50mg. á meðgöngu?

Og einnig hvað ég get gert við loftverkjum í bumbunni á nóttunni, hef einnig haft verki í lífbeininu sem ég finn til í þegar að ég stend upp eða geng, sem fylgja því að ég hef harðsperrur í innralærisvöðvunum. Á ég að leita læknis?

með þetta eða er þetta eðlilegt?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Þú ættir að ráðfæra þig við lækni eða lyfjafræðing áður en þú tekur nokkur lyf á meðgöngu. Hvað varðar vindverkina þá er ekkert óalgengt að konur fái vindverki á meðgöngu – það þrengir að þörmunum og svo er maturinn lengur í gegn þannig að meira loft myndast. Reyndu bara að forðast mat sem veldur auknum vindgangi eins og baunir, kál og lauk. Gættu þess einnig að drekka mikið af hreinu vatni. Verkir í lífbeini eru algengur fylgifiskur meðgöngu, sérstaklega þegar líður á, og þá getur verið erfitt að meðhöndla. Gættu þess að leggja ekkert óþarfa álag á lífbeinið. Forðastu allar bolvindur, s.s. skúringar og ryksugun, tröppugang og að keyra erfiðar innkaupakerrur. Eins skaltu reyna að sitja ekki lengi í einu og standa reglulega upp og ganga aðeins um. Svo er gott að hafa kodda milli fótanna þegar þú sefur og nota snúningslak í rúmið eða sofa í satínnáttbuxum með satín undir þér. Ef kveður rammt að þessum verkjum eða þeir fara stöðugt versnandi skaltu tala um þetta í mæðraverndinni og leita til sjúkraþjálfara.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir