Verkir undir iljum og í hæl?

Spurning:
Góðan dag.
Ég hef í nokkra mánuði verið með verki í fótum sem líkist helst að ég sé með vöðvabólgu í iljunum. Ekki veit ég hvort það er hægt. Ef ég styð fingri undir iljarnar finn ég sársauka og stundum finn ég til fram eftir nóttu. Ég finn til í hverju skrefi mest allan daginn (mis mikið samt) og geng eins og gamalmenni fyrst á morgnana og eftir að ég stend upp eftir tiltölulega stutta setu. Á kvöldin finnst mér ég varla komast skrefi lengra. Einnig er hællinn á hægra fæti mjög aumur síðustu daga. Ég hef gengið mikið á opnum töflum í sumar en er búin að fá mér góða Ecco skó með loftpúðum, en mér finnst það ekki muna neinu. Ég hef tekið íbúfen undanfarna daga til að kanna hvort það hafi áhrif, en þau eru mjög lítil. Er þetta eitthvað sem á bara að bíða eftir að lagist eða á ég að fara til læknis? Kveðja

Svar: 

Svar varðandi verki í fótum / iljum.
 
Sæl 
Lýsing þín á verkjum, stirðleika og bólgu í iljunum hljómar eins og hér sé um að ræða bólgu í liðböndum/bandvef sem liggur eftir endilangri ilinni (plantar fasciit) sem getur aftur valdið morgunstirðleika og verkjum í hælum. Oftast gerist þetta vegna ofálags t.d. í íþróttum eða ef um einhverjar fótaskekkjur er að ræða. Eins geta slæmir skór sem gefa lítinn stuðning
komið af stað misbeitingu fóta. Eingöngu er hægt að meta þetta ástand með skoðun á stöðu fóta og með þreifingu. Til að átta sig betur á hvað hefur komið af stað þessum einkennum skiptir máli hvað þú starfar við og gerir í frístundum. Alveg er
hugsanlegt að opnu töfflurnar sem þú nefndir hafi getað verið orsakavaldurinn. Þú hefur gert rétt með því að kaupa þér góða skó og taka bógueyðandi lyf í byrjun til að sjá hvort það dugi ekki. Ef ástandið hefur ekkert lagast þarft þú að leita til læknis sem metur hvort þú ættir að fara til  stoðtækjafræðings m.t.t. innleggja, í sjúkraþjálfun og/eða fá bólgueyðandi lyf.
Dragðu ekki of lengi að leita þér ráðlegginga.
 
Erna Kristjánsdóttir sjúkraþjálfari
Sjúkraþjálfun Styrk