Verkjalyf á meðgöngunni?

Spurning:
Hæ, hæ.
Ég er ófrísk af mínu fyrsta barni og er komin 23 vikur. Ég er mjög á móti öllum lyfjum á meðgöngu en um daginn var ég með svo mikla vöðvabólgu og hausverk að ég gat ekki opnað augun fyrir sársauka og þessu fylgdi ógleði og mikil vanlíðan. Ég tók þá hálfa 600 mg Ibúfen. Ég las á dolluna og þar stóð að það væri í lagi einstöku sinnum og alls ekki á síðasta þriðjungi. Seinna kynnti ég mér notkun Ibúfens á meðgöngu á spjallsíðum og svona og komst að því að það er alveg stranglega bannað, og núna er ég alveg rosalega hrædd um að hafa valdið einhverjum rosalegum skaða hjá barninu. Vonandi getið þið eitthvað frætt mig um þetta og sagt mér hvort ég hafi valdið miklum skaða.
Takk fyrir

Svar:
Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Það er rétt að ekki er mælt með töku á Ibufen á meðgöngu. Ef þörf er á verkjalyfjatöku á meðgöngu er mælt með að taka parasetamól.  Ég held að þú þurfir ekki að hafa áhyggjur þó þú hafir tekið þessa 1/2 töflu en aðal hættan af því að taka þetta lyf er á síðasta þriðjungi meðgöngu og er af því að lyfið getur haft þau áhrif að s.k. fósturæð lokast sem ekki á að gerast fyrr en eftir að barnið fæðist.
Njóttu meðgöngunnar og gangi þér vel.

Kær kveðja
Brynja Helgadóttir ljósmóðir