Verkjalyf við bakverk á meðgöngu

Spurning:

Góðan dag. Þannig er mál með vexti að ég er komin tvo mánuði á leið á minni fyrstu meðgöngu. Hún hefur gengið alveg eins og í sögu, ég hef ekki einu sinni fengið þessi týpísku uppköst sem svo oft fylgja. Hins vegar fékk ég brjósklos í bakið um helgina og get mig hvergi hreyft fyrir sársauka. Ég finn að þetta hefur áhrif á móðurlífið en ég er bæði búin að fara á kvennadeild LSP í skoðun og sónar, einnig á slysadeild og allt virðist vera í lagi. Ég var að velta því fyrir mér hvaða verkjalyf ég má taka og hve mikið af þeim á dag. Ég hef eingöngu tekið parkódín (venjulegt) tvær töflur einn daginn, en það slær bara voðalega lítið á sársaukann í bakinu. Ég hef verið að velta því fyrir mér að fara í nudd, en kemst ekki út úr húsi í svona ástandi, því miður. Þess vegna bið ég ykkur um ráð. Ég bíð bara spennt eftir svari og ligg bara á hitapokanum mínum þangað til…

kærar þakkir fyrir svör….

Svar:

Komdu sæl. Ósköp var þetta nú slæmt. Er þetta örugglega brjósklos? Ef svo er batnar þetta tæpast á meðgöngunni. Þú þarft að fara til læknis og fá almennilega greiningu á þessu og ef þú ert verulega slæm af brjósklosi, getur þurft að laga það jafnvel þótt þú sért þunguð. Ef þetta er eitthvað annað, t.d. taugaklemma, gætir þú haft gagn af að vera hjá sjúkraþjálfara. En fyrsta skrefið er læknirinn. Þau verkjalyf sem best gætu hjálpað þér máttu ekki taka á meðgöngu. Þér er e.t.v. óhætt að taka parkódín endrum og sinnum en það lyf sem talið er skaðlausast á meðgöngu er paracetamol (Panodil, Paratabs). Gigtarlyf, asperín og magnýl máttu ekki taka og þaðan af síður sterkari lyf eins og Dolvipar eða Voltaren.
Leitaðu læknis og fáðu hjálp.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir