Verkstol

Hæ ég er 64 ára kona með þunglyndi og er hjá geðlækni er á lyfjum og svo sálfræðingi vegna áfallastreitu röskunar en mér verður ekkert úr verki heima get ekki neitt ég geri svo margt í einu að ég gefst alltaf upp átti fullt af áhugamálum en hef ekki getað gert neitt ég birja en það endar í kössum á gólfinu og borðin full af föndri hálfgerðu hef gaman að mála myndir bæði á steina vatnslitamyndir akríl gerði mikið af krönsum skreytingum allskonar sauma bara gat gert allt sem mér datt í hug en nú er ég komin á endastöð og ég er að gefast upp og vil ekki lifa svona læknirinn min veit þetta mér finnst hún ekki skilja hvað mér líður illa er búin að vera svona lengi hvað er að gerast með mig getur mér ekki batnað Kv

 

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina.

Þetta er alveg eðlileg líðan en þú mátt ekki brjóta þig niður því það velur þetta enginn. Auðvitað sættum við okkur ekki við að vera ekki eins og áður og geta ekki gert eins mikið og áður en þú ert núna að takast á við aðra hluti sem þurfa orku og kraft og þá oft ekki mikill afgangur í annað. Nýttu þér slökun, hægt er að finna allskonar efni og slökunarforrit á netinu. Settu þér minni markmið, einn hlut í einu/á dag, eitthvað sem eykur hjá þér vellíðan og njóttu þess. Gerðu stundaskrá/dagskrá fyrir einn dag í einu þar sem fram koma verkefni daginsins, hreyfing, næring og skemmtun/dægradvöl, virkar oft betur ef maður er með þetta á blaði. Hugsaðu smátt í byrjun því svo er hægt að bæta frekar við, annars ferðu í að rífa þig niður fyrir það sem þú náðir ekki að gera. Ræddu þetta betur við lækninn þinn, kannski er eitthvað sem hann getur ráðlagt eða áframsent þig til annara sem geta hjálpað. Það eru til ýmis úrræði fyrir einstaklinga sem komnir eru í þrot og finnst þeir ekki geta haldið áfram en það þarf aðhald og vilja til að þiggja það sem í boði er. Það eru  til dæmis til virknihópar þar sem vinna saman starfsstéttir eins og læknar, hjúkrunarfræðingar, iðjuþjálfar, félagsráðgjafar, sálfræðingar og sjúkraþjálfarar.  Í svona hóp færðu ólik viðmið, utanumhald að þá aðstoð sem við þurfum til að koma okkur af stað aftur. Ef slík þjónusta er ekki í boði að þá er hægt að fá tilvísun til Iðjuþjálfa, þeir hjálpa mörgum að koma sér af stað/skipuleggja sig og miða það útfrá getu hvers og eins.

Vona að þetta hjálpi eitthvað, gangi þér/ykkur vel.

með kveðju,

Thelma Kristjánsdóttir

Hjúkrunarfræðingur.