Spurning:
Hæ, hæ, ég var að vona að þið getið eitthvað hjálpað mér þar sem það er mánuður þar til ég hitti ljósuna mína næst. En þannig er mál með vexti að ég er gengin 18v með mitt fyrsta barn og er að drepast úr verkjum í grindinni. Í fyrstu fékk ég bara stingi í rófubeinið og verk þegar ég sat og gekk en núna er ég bókstaflega að drepast úr verkjum í allri grindinni, þ.e fyrir ofan rassinn er rosa verkur sem leiðir alveg upp á milli herðablaðanna og niður í lappirnar og stundum fæ ég sviða í rasskinnarnar. Í gær datt vinstri mjöðmin bara út og ég var haltrandi allan daginn og með rosa verki og svo í dag er ég með verk sem er eins og harðsperrur í vinstri náranum, þetta veldur því að ég sef virkilega illa. Ég bara veit ekki hvert ég á að snúa mér í þessu öllu saman og ekki hjálpar til að ég er með vefjagigt fyrir og fæddist með mjaðmir sem voru ekki í lið og vinstri mjaðmakúlan hefur alltaf verið afmynduð inní skálinni sem hefur valdið mér óþægindum alla mína ævi.
Vonandi getið þið gefið mér einhver ráð. Ein ráðalaus
Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Verkir í mjóbaki og mjaðmagrind er tiltölulega algengur kvilli á meðgöngu og flestar konur finna á ákveðnum tímapunkti í meðgöngunni til á þessu svæði. Þetta er eðlilegur fylgikvilli meðgöngu en hjá sumum konum verður þetta meira vandamál en hjá öðrum og þá er stundum talað um grindargliðnun eða grindarlos. Það sem talið er að valdi þessu er að á meðgöngu slaknar á liðböndum líkamans fyrir tilstilli hormónabreytinga. Þetta veldur því að liðböndin styrkja liðina ekki eins vel og ella og konur verða lausari í liðum.
Eins og þú lýsir þessu þá virðist þú vera frekar slæm og það er spurning hvort þú getir beðið í mánuð eftir að hitta ljósmóður þína þú ættir að geta fengið auka tíma í mæðraskoðun og ráðfært þig við hana. En hér eru nokkur ráð sem gott er að hafa hugfast þegar konur eru slæmar í grindinni:
# Nota líkamsstellingar sem hindra óþarfa tog á neðri hluta baks.
# Nota fjölbreyttar líkamsstellingar t.d við vinnu.
# Forðast að beygja sig niður með bogið bak.
# Forðast að ryksuga og skúra gólf.
# Tröppugangur getur verið slæmur.
# Sitja í stól sem styður vel við bak.
# Nota kodda á milli fóta þegar legið er á hlið.
# Nota kodda til stuðnings fyrir kvið þegar legið er á hlið.
# Forðast snúning þegar farið er fram úr rúmi.
# Betra er að ganga en standa lengi kyrr.
# Forðast að lyfta mjög þungum hlutum.
# Forðast ójafnt álag á grindina t.d þegar haldið er á innkaupapokum er mikilvægt að dreifa þyngdinni jafnt til að jafna álagið.
# Reyna að hvíla sig um miðjan dag til að koma í veg fyrir verk vegna vöðvaþreytu.
# Vera í lágbotna skóm sem styðja vel við.
# Nota púða til stuðnings við bak.
# Hitapokar, kælipokar.
# Slökun
# Hvíld í nokkra daga getur verið góð meðan kona er að jafna sig eftir slæmt verkjakast.
# Stuðningsbelti eru talsvert notuð og til eru líka snúningslök til að hafa í rúminu, auðveldar allan snúning á nóttinni.
Vona að þetta komi að einhverju gagni og gangi þér vel,
bestu kveðjur, Ásthildur Gestsdóttir ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.