Spurning:
Of þung og lítil!!
Ég hef miklar áhyggjur af þyngdinni. Ég er um 57 kg. og um 160 á hæð. Ég er alltaf í einhverjum kúrum en stenst þá því miður ekki lengi. Á kjörþyngdarspjaldinu stendur að ég eigi að vera 50 kg og þetta þýðir að ég er 7 kg yfir þyngd! Ég verð að fara grennast, hefurðu einhverjar góðar hugmyndir? Er gott að fara í sund og synda á morgnanna? Eða gera endalausar magaæfingar? Hverjar eru bestu æfingarnar sem hægt er að gera? Ég veit að ég er ennþá á kynþroskaskeiðinu en samt er ég mun minni og þyngri en vinkonurnar mínar! Ég skil bara ekki af hverju ég stækka ekki og af hverju ég þyngist svona mikið! Gerðu það hjálpaðu mér:)
Kv. Fitubolla:(
Svar:
Sæl.
Til að losna við líkamsfitu þurfum við að brenna fleiri hitaeiningum en við neytum. Til að léttast þurfum við að borða fjölbreytt og hollt fæði og sneiða sem mest hjá sætindum og feitmeti. Best er að stunda fjölbreytta þjálfun, þ.e. ganga, skokka, hjóla, lyfta lóðum, fara í þolfimitíma o.s.frv. Með fjölbreyttri þjálfun er síður líklegt að líkaminn staðni, hann er sífellt að takast á við ólíkar æfingar. Þú eykur grunnbrennslu líkamans með því að styrkja reglulega (2-3x í viku) alla stærstu vöðvahópa líkamans. Þú brennir líka fullt af hitaeiningum á því að stunda hreyfingu og því meira sem þú reynir á þig, því meiri er brennslan. Gott er þó að hafa í huga að þegar þú ert að byrja er betra að fara ekki á fullt strax heldur að byrja hægar, svo þú gefist ekki upp eftir 5 mínútur, og auka svo smám saman álagið. Gott er að miða við að ganga/skokka/hjóla í 20-40 mín. Gerðu styrktaræfingar fyrir alla helstu vöðvahópa líkamans 2-3x í viku. Þannig eykur þú grunnbrennslu líkamans og brennir fleiri hitaeiningum á sólarhring. Líkaminn brennir ekki fitu staðbundið þannig að sama hve margar kviðvöðvaæfingar þú gerir þú munt ekki brenna fitunni af því svæði með þeim hætti. Hreyfðu þig svo sem mest, gakktu rösklega í skólann, notaðu öll tækifæri til að hreyfa þig svo þú mæðist talsvert. E.t.v. hentar þér að byrja að stunda einhverja hóp íþrótt sem þú hefur gaman af. Umfram allt hættu í megrunarkúrum, þeir gera bara illt verra og geta hægt á grunnbrennslu þinni. Aðalatriðið er að vera dugleg að hreyfa þig og sleppa sælgæti, gosi, snakki og þvílíku og fá þér einu sinni á diskinn í hverri máltíð. Borðaðu ávexti þegar þú ert svöng á milli mála. Nú erum við komin með nýtt tæki hér í Hreyfingu sem mælir grunnbrennslu fólks. Ef þér finnst þú hreyfa þig svipað og vinkonur þínar og borða hóflega og hefur áhyggjur af því að þú sért með hæga brennslu geturðu fengið úr því skorið með þessari mælingu. Mælingin kostar 3.900 og hægt er að panta tíma í síma 568 9915.
Gangi þér vel
kv. Ágústa.
Það er afskaplega misjafnt hvar þyngd hvers og eins liggur og kjörþyngd segir ekki alla söguna. Á kynþroskaskeiðinu eru stúlkur oft þyngri, vöxtur þeirra er að breytast og fituhlutföll líkamans einnig. Það að ætla öllum að vera innan ákveðins ramma er einfaldlega ekki hægt, beinabygging er misjöfn og því er talað um að það sé misþungt í fólki pundið. Þ.e. tvær manneskjur af sömu hæð og að manni finnst svipaðar í vextinum geta verið afskaplega misþungar og hefur það með vöðvamassa, beinabyggingu og annað þess háttar að gera. Hafðu endilega ekki of miklar áhyggjur af þessu, það er ekki öllum ætlað að vera eins, enda væri heimurinn ansi einsleitur ef allir væru eins.
Með góðri kveðju,
Jórunn Frímannsdóttir
Hjúkrunarfræðingur
www.Doktor.is