Sæl verið þið, ég er viðkvæm í maga og eftir skoðun var mér sagt að ég sé með viðkvæmann ristil. Gætuð þið gefið mér ráðlegingar hvað ég á helst að borða. Hafragrautur á morgnana er nánast það eina sem ég get borðað án þess að verða uppblásin og fá vindverki. Ég þarf að passa mig á öllum krydduðum matvörum og gengur mér því orðið illa að finna eitthvað sem ég get borðað
Með bestu kveðjum og fyrirfram þökkum
Ein þreytt
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Erfitt er að gefa slíkar ráðleggingar án ítarlegri upplýsinga. Best væri ef þú gætir fengið viðtal hjá næringarfræðing til að fara yfir mataræði og fá ráðleggingar um hvað það er sem hentar þér best. Einnig væri skynsamlegt að bóka tíma hjá ofnæmislækni til þess að hægt sé að útiloka fæðuofnæmi og -óþol.
Hér er þó meðfylgjandi listi yfir fæðu sem gæti hentað vel og aðra sem best væri að forðast. Það væri góð hugmynd að byrja á því að reyna að fylgja slíku matarræði og halda matardagbók til að átta sig betur á því hvað það er sem maður þolir verr en annað. Slík skráning gæti nýst gífurlega vel ef þörf er á því að leita ráða til næringarfræðings, ofnæmislæknis eða annars sérfræðings, en ekki síst fyrir þig sjálfa
Matur sem er þekktur fyrir að henta þeim betur sem eru með viðkvæman ristil er meðal annars:
- Fiskur og rækjur
- Eldaðar gulrætur, sellerý, kartöflur, linsubaunir og belgjurtir
- Hrísgrjón, pasta og couscous
- Eggjahvítur, fituskert jógúrt
- Ávextir svo sem melónur, jarðaber og bláber
- Pönnukökur og vöfflur
- Hafragrautur
- Mildar kjötkássur með hrísgrjónum
Mælt er með því að forðast:
- Grófar trefjar, gúrkur, papriku, hrátt spergil- og blómkál
- Áfengi
- Koffín
- Hnetur og stór fræ
- Mikið kryddaða fæðu, hvítlauk og lauk
- Maíssíróp með háu frúktósahlutfalli (innihaldsefni í mörgum tilbúnum matvörum)
Matarvenjur sem gætu dregið úr uppþembu og vindverkjum:
- Fleiri og smærri máltíðir, frekar heldur en fáar og stórar máltíðir
- Borða rólega og tyggja fæðuna vel
- Drekka vel af vökva yfir daginn, en gott er að forðast mikinn vökva samhliða fæðu
- Forðast að leggjast fyrir eða sofa skömmu eftir máltíð
- Gæta þess að hafa leysanlegar trefjar í matarræði, góðgerlar geta einnig verið hjálplegir
Gangi þér vel!
Auðna Margrét Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur