Vil minnka líkur á að fá matareitrun

Spurning:

Kæri Doktor.is

Ég hef dálitlar áhyggjur, þannig er mál með vexti að ég fór til útlanda í fyrra og var svo óheppin að fá matareitrun. Núna er ég að fara til Spánar með kærastanum mínum og er ferlega stressuð út af þessu, ég er svo hrædd um að fá þetta aftur. Er eitthvað hægt að gera, ég meina hægt að breyta eitthvað mataræðinu til að minnka líkurnar á matareitrun? Ein desperate

Svar:

Besta ráðið sem ég get gefið þér er að vanda fæðuvalið meðan á sumarleyfinu stendur. Best er að láta kjúklinga og egg alveg eiga sig, en þessar fæðutegundir innihalda í sumum tilfellum örverur sem geta valdið matareitrun. Sérstaklega skaltu vera varkár þar sem hreinlæti virðist ábótavant. Önnur ráð eru að forðast hrátt kjöt, skola vel ávexti og grænmeti og drekka ekki kranavatnið – og spyrja einnig á veitingastöðunum hvort vatnið í ísmolunum sé úr krananum!

Í þörmunum þrífst urmull af örverum sem eru hluti af náttúrulegu flórunni. Þessar bakteríur eru mikilvægar í baráttunni við óæskilegar örverur – þær sem valdið geta óþægindum. Líkurnar á að örverur sem valdið geta matareitrun nái sér á strik í þörmunum minnka ef hin náttúrulega þarmaflóra er sterk fyrir – það er mikil samkeppni þar á bæ! Náttúrulega þarmaflóran inniheldur meðal annars mjólkursýrugerla.

AB-mjólk og LGG+ eru dæmi um fæðutegundir sem innihalda mjólkursýrugerla sem lifa af ferðalagið í gegnum meltingarveginn og geta þannig átt þátt í að stykja náttúrulegu þarmaflóruna. Það sakar því ekkert að prófa að borða AB-mjólk eða LGG+ reglulega áður en þú ferð út og jafnvel hafa með þér í ferðalagið. Einnig er hægt að fá þessa sömu mjólkursýrugerla í hylkjum í apóteki.

Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir, næringafræðingur