Vinkona mín á ofvirkan dreng

Spurning:
Heill og sæll sérfræðingur góður.

Þannig er mál með vexti að ég veit ekki alveg hvert ég á að leita en hef oft kíkt inn á doktor.is og er hrifin af þessu framtaki hér. En þannig er að ég á vinkonu sem á ofvirkan dreng með athyglisbrest og við búum úti á landi. Hún er einstæð og á fl. börn en ef við snúum okkur að drengnum þá er hann mjög lítill eftir aldri, hann var settur á ofvirknislyf en móðurinni finnst lyfin hafa góð áhrif akkurat á meðan, en ferleg þegar þau eru að hætta að virka, þá fer allt í háaloft.

Því miður hef ég kannski ekki nógu góða sýn á þetta eða nógu góðar uppl. en geri mitt besta. Mér leikur forvitni á að vita með vöxt barnsins, bæði andlegan og líkamlegan, hvort þetta sé eitthvað sem fylgir alltaf eða hvort sé eitthvað meira að, eitthvað var verið að athuga með vaxtarhormón en þau voru nóg í líkamanum en kannski vinnur líkaminn ekki rétt úr þeim. Einnig hefur drengnum liðið mjög illa og hótað að fremja sjálfsmorð!!! Einnig – hvaða rétt á mamman? Þ.e.a.s. ummönnunarbætur og eitthvað annað í þeim dúr. Einnig finnst henni ekki hafa gengið nógu vel með að fá upplýsingar um við hverja hún á að tala um áhyggjur sonar síns, hver á að vera henni innan handar, er það heimilislæknirinn eða skólinn, félagsbatteríið, eða hvað? Hvert er ferlið? Og ef  grunur um að eitthvað annað og meira sé að drengnum, hvert á að leita? Og hvað er hægt að gera fyrir systkinin sem taka þetta mikið inn á sig?

Þetta er kannski ekki fullnægjandi lýsing en þá bara svona almennt hvert á að leita og hvað er hægt að gera.

Svar:
Ef barnið hefur fengið greiningu þá þarf að ræða við þann sem framkvæmdi þá greiningu. Skólasálfræðingur í þínu sveitarfélagi ætti að geta ráðlagt móðurinni og séð um að veita henni stuðning. Móðirin getur einnig haft samband við Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, s: 543-4300 og ætti í raun að hafa samband sem fyrst vegna vanlíðunar drengsins. Umönnunarbætur er hægt að sækja um hjá Tryggingarstofnun svo framarlega að barnið hafi greiningu frá barna- eða geðlækni. Læknirinn getur sótt um slíkar bætur fyrir móðurina.

Með kveðju,

Brynjar Emilsson
Sálfræðingur