Vinkona mín er þunglynd

Spurning:

Vinkona mín er þunglynd og ég hef reynt að gera allt sem ég get til að koma til móts við hana og sjúkdóminn. Ég hef lesið bækur og reynt að tala við hana sjálfa en ekkert gengur.

Nú er hún farin að ljúga að mér nokkuð oft og þótt ég spyrji hana aftur og aftur hvort að hún sé örugglega að segja satt, þá segir hún alltaf að hún myndi aldrei ljúga að mér. Svo þegar hún kemst að því að ég veit að hún var ekki að segja mér satt, þá biðst hún varla fyrirgefningar, hún er farin að taka mér sem sjálfsögðum hlut. Svo notar hún alltaf þunglyndið sem afsökun fyrir því að hún komi illa fram við mig.

Hún hefur meira að segja gengið svo langt að segja að hún sé svona mikið þunglynd vegna þess að ég sé svo vond við hana. Ég reyni að gera allt sem ég get til að umgangast hana eins og eðlilega persónu.

Er þetta réttlátt?

Hvað get ég gert?

Svar:

Komdu sæl og þakka þér fyrirspurnina.

Svona í fljótu bragði sýnist mér að þú þurfir fyrst og fremst að huga að sjálfri þér og hvað þú getir gert til að komast út úr því sem þú lýsir í bréfinu og ég leyfi mér að kalla vítahring. Þú nefnir reyndar ekki hvað þið stöllurnar eruð gamlar, en af efni bréfs þíns get ég mér til um að þið séuð varla yfir tvítugt og ber að lesa svarið í ljósi þess.

Í því sambandi langar mig að byrja á því að spyrja þig svolítið á móti. Hver segir að vinkona þín sé þunglynd? Er það mat læknis? Er hún í meðferð hjá geðlækni eða sálfræðingi við þunglyndinu og fær hún lyf við því? Ef hún er þunglynd þá er það sú hjálp sem hún þarf, eða hefur væntanlega fengið þegar. Reynist núverandi meðferð ekki sem skyldi, þá er það læknisins eða sálfræðingsins að sinna því og fínstilla hjálpina nánar. Með öðrum orðum sagt, það er ekki þér að kenna ef vinkona þín er þunglynd og ekki á þína ábyrgð ef henni skánar ekki. Og eitt enn, henni batnar ekki við það að þú verjir lífi þínu í umhyggju af þessu tagi.

Hvað réttlætið varðar, þá verður þú að æfa þig í að meta sjálf hvað þér finnst réttlátt í lífinu, það get ég ekki ákveðið fyrir þig. Hins vegar sýnist mér þú geta gert ýmislegt til að breyta stöðunni sem komin er í samband ykkar vinkvennanna. En það getur vel verið að það komi til með að reynast þér nokkuð erfitt að gera breytingar þar á. Ef þetta er fyrirkomulagið sem hún vill hafa, þá máttu búast við því að henni versni ef þú hættir að láta að stjórn. En þú ættir samt að reyna, því ef þú breytir ekki þinni eigin hegðun, þá breytist hegðun vinkonu þinnar í þinn garð heldur ekki neitt, nema hvað sambandið þróast að öllum líkindum til að verða enn flóknara en nú er.

Og nú ætla ég að spyrja þig aftur. Hvað með annað fólk – finnst þér það kúga þig? Og hvernig hagar þú þér svona almennt við aðra? Leggur þú þig í líma við að koma til móts við aðra, algjörlega á þeirra forsendum, án þess að viðkomandi taki nokkurt tillit til óska þinna og þarfa? Ef svarið er játandi, þá þarftu kannski að fá smá hjálp fyrir sjálfa þig? Ef ekki, reyndu þá að leggja niður fyrir þér hvernig þú hagar þér venjulega við aðra sem þér finnst þú vera í eðlilegu og góðu sambandi við og reyndu að hegða þér eins við hana. Ef það þýðir mikla breytingu frá því sem nú er, máttu eiga von á því að hún taki því ekki vel. Hvað með þig, mundir þú þola að hún reiddist og ásakaði þig ef til vill enn meira en áður?

Þú segist annars vegar reyna koma fram við vinkonu þína eins og eðlilega manneskju, en svo segirðu líka að þú hafir reynt ,,að gera allt sem þú getir til að koma á móts við hana og sjúkdóminn. – Lesið bækur og reynt að tala við hana sjálfa en ekkert gangi”. Þú ert þar með búin að fá svar við því að þessi leið virkar ekki og þú þarft þá að gera eitthvað annað í staðinn. Ég sting upp á því að þú farir að sinna þeim áhugamálum sem þú hefur (önnur?), og blanda geði við fleiri vini og vinkonur og gera eitthvað sem þér finnst virkilega skemmtilegt og þig hefur lengi langað að gera. Hver veit nema að vinkona þín vilji koma með þér, ef þú heldur þínu striki.

Þú nefnir einnig að vinkona þín segi þér ekki alltaf satt, og kenni þér um hvernig komið er fyrir henni. Hvað þetta varðar vísa ég til þess sem þegar er komið fram hér að ofan. Við það vil ég bæta þessu: Eitt af því sem einkennir það sem við köllum einu nafni andlegt ofbeldi, er að þolandanum er sagt og honum er talin trú um að það sé honum að kenna hvernig komið er og að hann beri ábyrgð á því óbærilega ástandi sem ríki. Þv&
iacute; miður er ekki annað að sjá á bréfi þínu en það sé einmitt slíkur vítahringur sem er að skapast hjá ykkur.

Hvettu vinkonu þína til að leita sér hjálpar til réttra aðila Verðlaunaðu hana síðan með nærveru þinni þegar og þá fyrst að hún hefur gert eitthvað í þá veru að leita sér hjálpar og hjálpa sér sjálf. Verðlaunaðu hana líka með nærveru þinni þegar henni líður þokkalega og hún er til í að gera eitthvað skemmtilegt með þér. Gættu þess þá að þið talið um eitthvað annað en veikindi hennar.

Gangi þér vel og stattu með sjálfri þér.
Guðríður Adda Ragnarsdóttir